(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Tækifæri í framleiðslu og geymslu birtuorku

 

Samtök rafverktaka (SART) stóðu nýverið fyrir fræðslufundi undir yfirskriftinni Tækifæri í framleiðslu og geymslu birtuorku á Íslandi. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Rafmenntar og var vel sóttur af fagfólki í rafiðnaði og tengdum greinum en einnig var fjöldi fagaðila sem fylgdist með beinu streymi frá fundinum.


Fjölbreytt erindi um þróun birtuorku
Á fundinum héldu þrír sérfræðingar framsögu:
• Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor
• Rúnar Kristjánsson, löggiltur rafverktaki A&B og verkefnastjóri hjá Tengli ehf.
• Óskar Frank Guðmundsson, sérfræðingur í rafmagnsöryggi HMS

Mikil tækifæri fólgin í nýtingu birtuorku
Linda kynnti starfsemi og verkefni Alor á sviði birtuorku. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er áætlað að fimm kerfi frá Alor muni framleiða samtals 70,5 MWst á ári. Einnig sagði Linda frá þróunarverkefni þar sem notaðar rafhlöður úr rafbílum eru endurnýttar í geymslukerfi sem safna t.d. umframorku frá sólarorkuverum og skila henni aftur inn í kerfið þegar eftirspurn skapast.


Hönnun og uppsetning birtuorkuvera
Rúnar hjá Tengli ehf. fjallaði  um ferli við hönnun og uppsetningu birtuorkuvera, þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi samráðs við hagaðila á borð við skipulagsyfirvöld, veitufyrirtæki og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Í erindi sínu fór Rúnar yfir lykilatriði í tæknilegri útfærslu birtuorkuvera og hvernig framleiðslugeta þeirra getur haft áhrif á þær kröfur sem gerðar eru til uppsetningar, samþykkis og rekstrar. Þá kom fram að vel skipulagt samráð snemma í ferlinu geti dregið úr töfum og stuðlað að aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku.


Reglur og ábyrgð í orkuvinnslu
Að lokum fjallaði Óskar um reglur og öryggiskröfur sem gilda um orkuframleiðslu í neysluveitum. Í erindi hans komu fram eftirfarandi lykilatriði:
• Öll uppsetning birtuorkuvera þarfnast aðkomu löggiltra rafverktaka og telst tilkynningarskyld.
• Allar orkuframleiðandi einingar, óháð stærð, þarf að tilkynna til viðkomandi dreifiveitu.
• Dreifing og sala á raforku krefst ábyrgðarmanns og öryggisstjórnunarkerfis.
• Framleiðsla yfir 11 kW, jafnvel þó hún sé til eigin nota, þarfnast ábyrgðarmanns og öryggisstjórnunarkerfis.


Vaxandi áhugi og mikilvægt aðhald
Fundurinn endurspeglar vaxandi áhuga á sjálfbærri orkuframleiðslu á Íslandi og mikilvægi þess að farið sé að reglum og viðeigandi verklagi við uppsetningu og rekstur birtuorkukerfa.
Samtök rafverktaka fagna umræðu sem þessari, sem stuðlar að öruggri nýtingu endurnýjanlegrar orku, skýru regluverki og öflugri tækniþróun í þjónustu við græna framtíð.
Upptaka frá fundinum er aðgengileg á Youtube rás Rafmenntar: Sjá hér

 

 

 

 

 

Fræðslufundur Sart 9. október

Vakin er athygli á fræðslufundi Sart sem haldinn verður 9. október.

Skraning er nauðsynleg:  https://forms.office.com/e/bU1Ej4ebZe

 

Skortur á faglærðu rafiðnaðarfólki ógnar samkeppnishæfni – staðan er einnig alvarleg á Íslandi

Grein á Vísi vekur athygli á manneklu í rafiðnaði í Evrópu – íslenska menntakerfið ræður ekki við eftirspurnina.

Í nýlegri umfjöllun á Vísi eftir Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóra Sart er fjallað um þann vanda sem blasir við í mörgum Evrópulöndum vegna skorts á faglærðu rafiðnaðarfólki. Vaxandi verkefni í tengslum við orkuskipti, rafvæðingu samgangna og stækkun orkuinnviða hafa skapað mikla eftirspurn eftir menntuðu starfsfólki, en nýliðun í greininni heldur ekki í við þörfina. Í greininni er byggt á gögnum samtakanna EuropeOn, sem Samtök rafverktaka (SART) eiga aðild að.

Í gögnum EuropOn kemur fram að sé ekki brugðist við manneklu og hindrunum í menntakerfinu, er hætta á að orkutengd uppbygging og græn orkuskipti í Evrópu muni dragist verulega.

Íslenskt skólakerfi ræður ekki við áhuga nemenda

Svipaða þróun má sjá hér á landi. Áhugi á námi í rafiðngreinum er mikill og stöðug eftirspurn er á vinnumarkaði eftir faglærðu rafiðnaðarfólki. Hins vegar ráða framhaldsskólarnir ekki við þann fjölda sem sækir um – einkum vegna skorts á fjármagni, aðstöðu og kennslutækjum.

Þessi staða kemur sérstaklega niður á fullorðnu fólki sem hyggst ljúka námi í kvöldskóla. Fjöldi umsækjenda kemst ekki að vegna þess að hvorki er til staðar næg aðstaða né fjárveitingar sem gera skólunum kleift að fjölga nemendum. Þannig verður eftirspurn eftir námi ekki mætt, þrátt fyrir skýra þörf og vilja til að hefja eða ljúka námi.

Samtök rafverktaka kalla eftir úrbótum

SART hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að auka framlög til rafiðnnáms, bæta aðstöðu í skólum og tryggja að námið sé aðgengilegt bæði ungmennum og fullorðnum sem vilja mennta sig á þessu sviði. Ef ekki tekst að tryggja nægilegt framboð af menntuðu fagfólki mun það hafa áhrif á hraða orkuskipta og getu samfélagsins til að bregðast við loftslagsáskorunum.

Að mati SART er tímabært að stokka upp forgangsröðun í fjárveitingum til framhaldsskólanna og koma á fót markvissum aðgerðum sem styðja við nýliðun í rafiðnaði. Þar þarf að horfa sérstaklega til kvöldnáms og endurmenntunar, sem gegna lykilhlutverki í að fjölga faglærðu fólki á vinnumarkaði.

Útboð á þjónustu rafverktaka fyrir götulýsingu og umferðarljós í Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur auglýst útboð á rammasamningi um þjónustu rafverktaka vegna viðhalds og viðgerða á götulýsingar- og umferðarljósakerfi borgarinnar. Um er að ræða umfangsmikið verkefni sem spannar bæði reglubundið viðhald og neyðarviðgerðir.


Umfangsmikil vinna við kerfi borgarinnar
Verkið felur meðal annars í sér:
   • Reglubundið eftirlit og vöktun
   • Bilanaleit og viðgerðir
   • Vinnu við jarðstrengi og götuskápa
   • Uppsetningu og skipti á ljósastaurum og lömpum
   • Neyðarviðgerðir og uppsetningu ljósabúnaðar
Útboðið er skipt í tvo hluta og er bjóðendum heimilt að bjóða í annan hvorn eða báða hluta. Einungis eitt tilboð má þó leggja fram í hvorn hluta.


Tímabil og verðmæti samnings
Rammasamningurinn gildir í eitt ár með möguleika á þrígangs framlengingu um eitt ár í senn, að hámarki í fjögur ár. Hámarksheildarverðmæti samningsins er áætlað 840 milljónir króna með virðisaukaskatti. Ekki er tryggt ákveðið lágmarksmagn kaupa.

Helstu dagsetningar
   • Fyrirspurnarfrestur bjóðenda:        1. ágúst 2025 kl. 12:00
   • Svarfrestur kaupanda:                  7. ágúst 2025 kl. 12:00
   • Tilboðsfrestur og opnun tilboða:  14. ágúst 2025 kl. 10:00
   • Gildistími tilboða:                       12 vikur frá opnunardegi

Útboðið er auglýst innan EES og fer fram á útboðsvef Reykjavíkurborgar. Hlekkur á vefinn: https://utbod.reykjavik.is/aspx/Home

Tækifæri fyrir félagsmenn SART
Þetta útboð býður upp á mikilvægt tækifæri fyrir félagsmenn í Samtökum rafverktaka til að koma að viðhaldi og þróun innviða í höfuðborginni. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér útboðsgögn og íhuga þátttöku. Verkefni af þessu tagi styðja við stöðuga atvinnu í greininni og efla hlutverk rafverktaka í opinberum framkvæmdum.

Vaxandi áhugi á sólarorku – mikilvægt að fylgja reglum og vanda til verka

Áhugi á uppsetningu sólarvirkja hefur aukist verulega á undanförnum árum, bæði hér á landi og víðar. Með framförum í tækni er nú raunhæfur möguleiki að nýta sólarorku til raforkuframleiðslu jafnvel á norðlægum slóðum eins og á Íslandi.

Sólarvirki í stuttu máli
Sólarorkukerfi samanstanda af sólarsellum sem umbreyta sólarljósi í rafmagn. Raforkan verður til sem jafnstraumur sem síðan er breytt í riðstraum með svokölluðum áriðli (inverter), þannig að hægt sé að nota hana í hefðbundin raftæki á heimilum.

Nauðsynlegt að fara að settum reglum
Þrátt fyrir að sólarorkukerfi séu ekki enn orðin algeng á Íslandi, hefur uppsetning þeirra aukist gríðarlega í Evrópu. Í kjölfarið hafa komið upp tilvik um bruna og truflanir á rafbúnaði og fjarskiptum. Slík atvik undirstrika mikilvægi þess að velja vandaðan og samhæfan búnað og fá sérhæfða aðila til verksins.

Sérstaklega skiptir máli að:

  • Allur búnaður uppfylli gildandi kröfur og staðla.
  • Íhlutir séu keyptir frá aðilum með reynslu til að tryggja samhæfni og draga úr áhættu á truflunum.
  • Uppsetning og tenging fari fram á ábyrgð löggilts rafverktaka sem tilkynnir verkið til HMS.


Byggingarleyfi og burðarþol
Við uppsetningu á þaki þarf að huga að burðarþoli og vindálagi, auk þess sem uppsetning getur verið byggingarleyfisskyld eða tilkynningarskyld til byggingarfulltrúa sveitarfélags.

HMS gefur út verklýsingar
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur gefið út verklýsingu VL 3.040 sem fjallar um raflagnir sólarvirkja. Þar er fjallað um reglugerð um raforkuvirki (rur) og viðeigandi staðla, þar á meðal ÍST HD 60364, sem lúta að öruggri og rétt útfærðri uppsetningu rafbúnaðar.

Samantekt
Sólarorka býður upp á spennandi tækifæri fyrir sjálfbæra orkuöflun, en nauðsynlegt er að vanda til verka og fylgja settum reglum og stöðlum. Samtök rafverktaka leggja áherslu á að skapa öruggt og traust rekstrarumhverfi fyrir nýja tækni og hvetja til þess að fyrirtæki sem starfa á þessu sviði tileinki sér faglega vinnubrögð og nýti sér leiðbeiningar opinberra aðila. Þetta tryggir bæði öryggi og framgang grænna orkulausna á Íslandi. 

Samvinna og seigla í raforkumálum í brennidepli á fundi Evrópskra rafverktaka

Áhersla á öryggi raforkukerfa, nýja tækni og löggjafarmál í Evrópu
Framkvæmdastjórar innan Evrópskra samtaka rafverktaka sem aðild eiga að EuropeOn komu saman á fundi í Edinborg dagana 21-23 maí, en gestgjafar fundarins voru skosku rafverktakasamtökin Select, sem í ár fagna 125 ára afmæli sínu. Fundurinn beindi sjónum að stefnumótun og nýjustu þróun í orkumálum, með sérstakri áherslu á viðbrögð við áskorunum sem tengjast innviðum og sjálfbærni raforkukerfa.

Svartur dagur í spænska orkukerfinu
Raúl Rodriguez greindi frá straumleysi sem varð á Spáni þann 28. apríl og rakti það til óhóflegrar innspýtingar endurnýjanlegrar orku inn á ofhlaðið flutningskerfi. Hann lagði áherslu á að koma þyrfti á formlegu samtali milli dreifi- og flutningskerfisaðila til að styrkja seiglu orkukerfa og getu þeirra til að bregðast við sívaxandi orkuþörf og minnkandi fyrirsjáanleika í loftslagsmálum.

Seigla og öryggi rafmagnskerfa
Umræður héldu áfram um mikilvægi þess að efla seiglu í raforku- og fjarskiptakerfum. Esther Dijk, fulltrúi Hollands, lagði áherslu á nauðsyn þess að bregðast við kerfisbilunum með samhæfðum aðgerðum með það að markmiði að tryggja aðgang að rafmagni og vatni. Alexander Neuhäser fulltrúi Þýskalands lagði til að hugtakanotkun um orkuskipti og öryggi yrði einfölduð með því að tala einfaldlega um "seiglu rafmagnsinnviða" og benti á mikilvægi jarðhitalausna í því samhengi.

Þjóðlegar áskoranir og efnahagsleg þróun
Fulltrúar frá meðal annars Sviss og Austurríki sögðu frá breyttum reglum í heimalöndum sínum. Í Sviss var lýst áhyggjum af nýjum reglugerðum, en í Austurríki höfðu skattfríðindi tengd endurnýjanlegum orkugjöfum verið afnumin. Í Frakklandi er starfsemi rafverktaka enn með nokkuð stöðugu móti, þó að erfiðleikar væru í íbúðamarkaði. Fulltrúi Sart greindi frá hraðri fólksfjölgun og örum vexti íslenska hagkerfisins sl. 10 ár, en einnig þeim áskorun sem fylgir háum stýrivöxtum og minnkandi framboði á íbúðarhúsnæði.

Aðgerðaáætlun um rafvæðingu og lagasetning í farvatninu
Kynnt var aðgerðaáætlun EU um rafvæðingu sem miðar að því að lækka orkukostnað og efla græna innkaupastefnu hins opinbera. Þá var rætt um innleiðingu nýrra reglna um orkunýtingu, sem eru nú að færast inn í landslög með stuttan frest til útfærslu.

Mikilvægi samstarfs
Að lokum var fjallað um kosti og galla mögulegrar sameiningar EuropeOn við önnur samtök með svipuð markmið og áhrifin sem slík sameining gæti haft á hagsmunagæslu. Sameiginleg niðurstaða fundarins var að þörf væri á öflugri samvinnu til að ná fram meiri áhrifum í stefnumótun stjórnvalda og tryggja öryggi og sjálfbærni í rafmagnsinnviðum framtíðarinnar.

Pétur Hákon Halldórsson formaður Sart, Alan Wilson framkvæmdastjóri Select og Kristján Daníel Sigurbergsson framkvæmdastjóri Sart.


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.