(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Ráðstefna og aðalfundur EuropeOn haldin í Berlín í samvinnu við ZVEH

Ráðstefna EuropeOn, í samvinnu við þýsku samtök raf- og upplýsingatækniiðnaðarins ZVEH, fór fram dagana 17.-18. október 2024 í Berlín. Á ráðstefnunni komu saman lykilfulltrúar rafverktakageirans í Evrópu til að ræða framtíð rafiðnaðarins og sjálfbæra þróun í greininni.
Dagskráin hófst með hringborðsumræðum, en á eftir fylgdu áhugaverð erindi frá ýmsum fyrirlesurum. Meðal þeirra var Adalbert Neumann frá Busch-Jaeger Elektro GmbH, sem ræddi alþjóðlega strauma í raforkugeiranum. Dr. Torsten Hager frá Hager Electro GmbH fjallaði um mikilvægi orkustjórnunar fyrir sjálfbæra framtíð, og Alexander Grams frá ABB Stotz-Kontakt GmbH kynnti nýstárlega notkun sýndarveruleikagleraugna í raforkugeiranum.
Einnig voru áhugaverðar umræður um framtíðarlausnir með nýjum tólum og markaðstorgum. Þar á meðal voru erindi um nýtingu gagna og stafrænna vörupassa sem mikilvæg tæki í viðskiptum, með framlagi frá Paul Seifert, Prof. Thomas Knothe og Ludwig Klatzka.
Aðalfundur EuropeOn var svo haldinn 18. október þar sem fráfarandi formanni Martin Bailey frá ensku rafverktakasamtökunum ECA var þakkað fyrir störf síní þágu samtakanna. Í framhaldinu var Kimmo Hallamaa, fulltrúi frá finnsku rafverktakasamtökunum STUL, kosinn nýr formaður EuropeOn til næstu þriggja ára.
Fundurinn var vel heppnaður og styrkti tengslanet innan evrópska rafverktakageirans. Íslensku fulltrúarnir, Hjörleifur Stefánsson, formaður Sart, og Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Sart, sóttu fundinn fyrir hönd Samtaka rafverktaka

Emma Elholm Karlsson stjórnarmaður í EuropeOn, Martin Bailay fv. formaður EuropeOn, Julie Beaufils framkvæmdastjóri EuropeOn, Kristján D. Sigurbergsson framkvæmdastjóri Sart og Claudia Vera Grossocordone starfsmaður EuropeOn

 

Hjörleifur Stefánsson formaður Sart kynnir sér raflagnakerfi í sýndarveruleika

Vegleg gjöf til Raftækniskólans

Samtök rafverktaka (SART) eiga 75 ára afmæli í ár og að því tilefni gáfu þau Raftækniskólanum veglegar gjafir. Stjórn SART sýndi rafeindavirkjun sérstakan stuðning og gaf deildinni tíu Fluke mæla sem munu nýtast við kennslu á námsbrautinni. Einnig gáfu samtökin skólanum Profitest úttektarmæli fyrir raflagnir, þar að auki fylgdi mælinum allur nauðsynlegur aukabúnaður til að gera mælingar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Við afhendingu gjafarinnar 4. október sl. flutti Hjörleifur Stefánsson formaður Sart stutt erindi áður en Skólameistari og Aðstoðarskólameistari veittu gjöfunum viðtöku.  

Erindi Hjörleifs:
Þann 31. mars 1949 komu nokkrir rafvirkjameistarar sama og stofnuðu Landssamband rafvirkjameistara skammstafað LÍR, seinna var svo nafninu breytt í Landssamband íslenskra rafverktaka. Það var svo árið 2010 að félagsmenn LÍR ákváðu að taka upp nafnið Samtök rafverktaka í raf og tölvuiðnaði en örfáum árum seinna ver nafninu enn breytt og þjálla nafn valið sem stendur enn sem er Samtök rafverktaka,  skammstafað SART.
  Í SART eru 7 landshlutafélög löggiltra rafverktaka auk félags Rafeindatæknifyrirtækja sem starfar á landsvísu. Rúmlega 200 fyrirtæki rafverktaka eru innan SART og starfsmenn þeirra eru ca 80% af starfandi rafiðnaðarmönnum á Íslandi
Á þessum 75 árum sem liðin eru frá stofnun samtakanna hafa forystumenn þess unnið að hagsmunum iðngreinarinnar og mikilvægur hluti þess er að styðja við faglegt starf verkmenntaskólanna og að sjálfsögðu opna dyr sínar fyrir nemum sem þurfa að komast í vinnustaðanám.
Eitt stærsta hagsmunamál rafverktaka síðustu ár er að hafa aðgang að vel menntuðu rafiðnaðafólki. Má í því samhengi má nefna að niðurstöður greiningar sem Samtök iðnaðarins unnu fyrir SART dregur fram að félagsmenn SART áætla að þeir þurfi að ráða 800 nýja starfsmenn á næstu 5 árum til að mæta þörf markaðarins.
Undanfarin ár hefur fjöldi útskrifaðra sveina rétt svo haldið í við þann fjölda sem farið hefur á eftirlaun eða haldið á önnur mið, en nýsveinum hefur heldur fjölgað þetta árið vonandi heldur þeim áfram að fjölga því mikil og fjölbreytt atvinnutækifæri eru fyrir rafiðnaðarfólk framtíðarinnar.
Það er okkur sérstök ánægja að í tilefni 75 ára afmælis Samtaka rafverktaka að styðja við rafiðnaðardeild Tækniskólans með þeirri gjöf sem var samþykkt af stjórn að færa skólanum á þessum tímamótum, með von um að þessi tæki verði til að styðja enn betur við rafiðnaðarnám Tækniskólans.
Góðar stundir

 

VMA færð gjöf frá FRN og SART við útskrift nýsveina

Verkmenntaskólinn á Akrueyri, VMA útskrifaði 27 sveina í rafiðngreinum við hátíðlega athöfn í Hofi  föstudaginn 20. september sl.
Að þessu sinni útskrifuðust 23 rafvirkjar og 3 rafveituvirkjar.


Við athöfnina óskaði Aðalsteinn Þór Arnarson, formaður Félags löggiltra rafverktaka á Norðurlandi, FRN og stjórnarmaður í Samtökum rafverktaka, SART, nýsveinum til hamingju með áfangann og rifjaði upp þegar hann stóð í sömu sporum og þau gera nú. Þá afhenti Aðalsteinn,  Bergi Líndal Guðmundssyni viðurkenningu fyrir besta samanlagðan árangur í bóklegu og verklegu sveinsprófi.
Að útskriftinni lokinni steig Aðalsteinn aftur á stokk og kom í máli sínu inn á það að í ár eru Samtök rafverktaka 75 ára og VMA 40 ára. Í því tilefni afhenti Aðalsteinn skólanum gjöf frá SART og FRN. Um er að ræða 10. vandaða mæla af gerðinni Fluke 177 sem koma til með að vera notaðir við kennslu í rafiðngreinum gjöf.  Björn Hreinsson kennari við VMA tók við gjöfinni fyrir hönd VMA.

 

Aðalsteinn Þór Arnarson formaður FRN afhenti Bergi Líndal Guðmundssyni viðurkenningu fyrir besta samanlagðan árangur á bóklegu- og verklegu sveinsprófi.

 

 

SART á Norrænni ráðstefnu rafverktaka

Norræn samtök rafverktaka NEPU, funduðu í Færeyjum í liðinni viku.
Fulltrúar Íslands frá Samtökum rafverktaka, Sart, voru Hjörleifur Stefánsson formaður Sart og Kristján Daníel Sigurbergsson framkæmdastjóri Sart. Gestur fundarins var Julie Beaufils aðalritari EuropeOn sem eru evrópsk samtök rafverktaka
Undir yfirskriftinni “Hvernig á að færa norðrið nær Brussel ” var fjallað um það hvernig hægt sé að efla samstarf þvert á stofnanir norrænu samtakanna og þar með auka áhrif rafiðnaðarins innan ESB sem og standa betur vörð um starfsumhverfi og hagsmuni rafverktaka.
Einnig var fjallað um notkun á gervigreind í störfum rafverktaka fyrirtækja og kynnt dæmi um notkunarmöguleika gervigreindar. á fundinum kom fram að með markvissri innleiðingu gervigreindar í rekstrarumhverfi rafverktaka væru mikil tækifæri til að draga úr yfirbyggingu og þannig lækka rekstrarkostnað.

Þá fengu fundarmenn tækifæri til að heimsækja vindorkuver sem rekið er af Færeyska orkufyrirtækinu SEV. Í heimsókninni fengu gestirnir greinargóða kynningu á starfsemi og framtíðaráformum fyrirtækisins.

 

Troels Blicher Danielsen framkvæmdastjóri Tekniq vakti athygli fundarmann á því að gert sé ráð fyrir því að árið 2030 muni vanta 6700 rafvirkja til starfa í Danmörku 

 

Terji Nielssen forstöðumaður rannsókna og þróunar kynnti vindorkuver SEV

Vindmillugarður ofan við Þórshöfn

Vindmillugarður ofan við Þórshöfn

Vaxandi áhugi á sólarorkuverum

Vaxandi áhugi er hér á landi á uppsetningu á sólarorkuvera við heimili og fyrirtæki.
í því samhengi er gaman að segja frá því að Orkusetur Orkustofnunar hefur nú opnað fyrir umsóknir á styrkjum vegna raforkuframleiðslu með sólarsellum.
Að mörgu er að hyggja þegar kemur að uppsetningu og tengingu sólarorkukerfa og rétt er að vekja athygli á því að öll raflagnavinna, þ.m.t. uppsetning og tenging sólarorkukerfa, skal unnin á ábyrgð löggilts rafverktaka sem tilkynnir verk sín til HMS að þeim loknum.
Töluverð reynsla er komin á uppsetningu sólarorkuvera í Evrópu  þar með talið á Norðurlöndunum. Hjá vef sænska rafmagnseftirlitsins má finna áhugaverðar greinar sem tengjast uppsetningu sólarorkuvera og má til dæmis benda á áhugaverða grein sem ber nafnið Varför stör solceller andra elprodukter och elanläggningar?  Og fjallar greinin um truflanir sem sólarorkuver geta valdi á rafkerfum í nálægð við orkuverin. Einnig má benda á frétt á vef HMS sem fjallar um atriði sem vert er að hafa í huga þegar kemur að uppsetningu sólarorkuvera. Auk þess er mikið efni um sólarorku aðgengilegt á vef NHO Elektro norsku systursamtökum Sart. 

Sart hvetur félagsmenn til að gefa tækninni á bak við sólarorkuverin gaum þar sem vænta má aukinnar eftirspurnar á uppsetningu þessara orkukerfa.

Rafmenn ehf styrkja rafiðnaðardeild VMA

9. júní sl.  afhentu fulltrúar eigenda rafverktakafyrirtækisins Rafmenn ehf. Verkmenntaskólanum á Akureyri gjafabréf að verðmæti 500 þús. hjá Fagkaupum. Tilefnið er 40 ára afmæli VMA.
Í tilefni dagsins sagði Eva Dögg Björgvinsdóttir, einn eiganda fyrirtækisins, að með gjöfinni vilji Rafmenn ehf. styrkja og styðja við rafiðnaðardeild skólans og þannig hvetja nemendur til dáða. Við höfum fengið marga efnilega og frábæra rafvirkja frá skólanum og viljum endurgjalda það á einhvern hátt og kunnum við að þakka skólanum fyrir það. Það er mikilvægt að hafa þetta nám hér á Akureyri og viljum leggja okkar að mörkum um að halda í og efla tengslin við skólann enn frekar.

Rafmenn ehf. var stofnað árið 1997 og  í dag starfa 38 starfsmenn hjá fyrirtækinu þar af 6 nemar. Fyrirtækið býður upp á alhliða þjónustu í heimilis- og fyrirtækjalögnum, öryggis-, síma og tölvulögnum. Þá sinnir þjónustudeild fyrirtækisins bilanagreiningu og viðgerðum á hinum ýmsu tækjum og tólum fyrir fjöldan allan af fyrirtækjum og stofnunum ásamt uppsetningu á nýjum rafbúnaði. Einnig býður fyrirtækið upp á þjónustu við ársúttektir á brunakerfum og neyðarlýsingu.

 

Á myndinni hér að neðan eru frá vinstri: Eva Dögg Björgvinsdóttir - skrifstofustjóri Rafmanna, Sigríður Huld Jónsdóttir – skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, Jóhann Kristján Einarsson – framkvæmdastjóri Rafmanna, Guðmundur Geirsson – kennari rafiðngreina, Haukur Eiríksson brautarstjóri og kennari rafiðngreina og Óskar Ingi Sigurðsson – kennari í rafiðngreina 

 

 


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.