(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Breytinga er þörf á útboðsmarkaði rafverktaka!

Góð umræða skapaðist á ráðstefnu Samtaka rafverktaka, SART, um útboðsmarkað rafverktaka sem fór fram á Grand Hótel Reykjavík 28. maí síðastliðinn. Fundarstjóri var Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri SART.

Í upphafi ráðstefnunnar flutti formaður SART, Hjörleifur Stefánsson, ávarp. Í máli hans kom meðal annars fram að háværar raddir væru um að breytinga sé þörf og að gæðum í útboðsverkum hafi hrakað. Hann nefndi að oft á tíðum færu útboðsverk úr böndunum vegna ófyrirséðra hluta þegar ófullnægjandi hönnunargögn þar sem skýrar verklýsingar og magntöluskrár eru jafnvel ekki fyrir hendi. Hjörleifur  sagði að samtal rafverktaka við raflagna- og lýsingarhönnuði / verkkaupa væri takmarkað og jafnvel ekki heimilt án beinnar aðkomu eða milligöngu aðalverktaka. Rafverktakar upplifi sumir hverjir ógagnsæi og trúnaðarbrest í samskiptum við aðalverktaka þegar ekki eru formlegar opnanir á tilboðum þeirra sem undirverktaka. Þá sagði hann að hæfisskilyrði í útboðsgögnum væru ekki virt eða jafnvel alveg sniðgengin. Hjörleifur sagði rafiðnaðinn vilji leggja sitt af mörkunum og nefndi spennandi verkefni sem væri í vinnslu en um er að ræða ákvæðisvinnustofu rafiðnaðarins í samvinnu við hagaðila líkt og helstu verkfræðistofur. Verkefnið gangi út á að samræma númerakerfi magntölulýsinga í útboðsgögn við númerakerfi ákvæðisvinnugrunnsins. Þetta sé verkefni sem geti bæði eitt óvissu og einfaldað gerð kostnaðaráætlana og útboðsgagna.

Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, varpaði fram fjórum spurningum; er farið í útboð? er undirbúningur útboða góður? er framkvæmd útboða nægjnaleg góð? eru skilmálar útboða og eftirfarandi samninga eðlilegir? Björg Ásta leitaðist við að svara þessum spurningum og fór yfir lagarammann sem setur leikreglur á útboðsmarkaði og hvar löggjafinn mætti gera betur. Hún benti meðal annars á atriði sem gætu bætt framkvæmd útboða frá því sem nú er.

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, fjallaði um leiðir til að auka skilvirkni í framkvæmdum á vegum Veitna. Í máli hans kom meðal annars fram að Veitur séu að íhuga að setja inn kröfu til hönnuða um að fara á verkstað fyrir og á meðan framkvæmdum stendur. Ástæðan sé einfaldlega sú að þeir hönnuðir sem koma beint á staðinn og eiga í beinum samskiptum við framkvæmdaaðila séu þeir hönnuðir sem gera færri mistök og koma með snjallari lausnir en þeir hönnuðir sem hanna úr „fjarlægð“. Gestur sagði að Veitur ætli að óska eftir samstarfi við SI og FRV um nánari útfærslu. Þá kom fram í máli hans að Veitur eru að íhuga að útfæra fleiri tegundir útboðsforma sem taka á þessari áskorun því það sé mikilvægt að sanngirni og samstarf sé leiðarljós þegar um sé að ræða verkefni þar sem verkkaupi getur ekki verið með nákvæm gögn í útboði. Hann sagði Veitur muni leitast eftir samstarfi við Ríkiskaup, Vegagerðina og aðra hagsmunaaðila við að finna góðar lausnir.

Guðjón L. Sigurðsson, rafmagnsiðnfræðingur og ljósvistarhönnuður, Liska, fór yfir hvernig grænar áherslur í mannvirkjagerð geri sífellt meiri kröfur til skýrslugerða af hendi verktaka án þess að verkkaupi geri grein fyrir þeirri vinnu í magntölum útboðsgagna. Hann sagði of algengt að verkkaupar leiti ekki til fagmanna við gerð kostnaðaráætlana sem aftur leiðir til ónákvæmra hönnunargagna og nefndi dæmi um verkbeiðni til hönnuðar; hönnun boðin út fyrir 180 íbúðir í fjölbýli eða t.d. 65 herbergja hótel. Þetta geti leitt til þess að himinn og haf sé á milli væntinga verkkaupa og svo endanlegrar útkomu úr verklegum framkvæmdum með tilheyrandi eftirmálum.

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, stýrði pallborðsumræðum með þátttöku eftirtaldra: Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa, Ólafur Steingrímsson, teymisstjóri, innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar, og Eiríkur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fagtækni.

Í máli Björgvins Víkingssonar, forstjóra Ríkiskaupa, kom fram að hann vill breyta aðkomu Ríkiskaupa að opinberum verkefnum, hann sagði að auka þurfi samtal milli hagaðila. Hann sagði Ríkiskaup koma mjög seint að opinberum framkvæmdum því búið væri að leggja línurnar annarsstaðar og Ríkiskaup framfylgi vilja ríkisstofnana. Hann sagðist vilj auka þekkingu og færni innan Ríkiskaupa og sér fyrir sér að Ríkiskaup verði á næstu misserum í auknu ráðgjafahlutverki við ríkisstofnanir. Björgvin sagði að skapa þurfi aukið virði bæði fyrri starfsmenn og viðskiptavini Ríkiskaupa. Þetta muni vera ferli sem tekur 3-5 ár og á þeim tíma þurfi þeir endurgjöf frá markaðnum, í hvaða formi sem endurgjöfin kann að vera. Hann sagðist fagna kærum og kvörtunum ef það leiddi til þess að Ríkiskaup verði betri í starfi og skili auknu virði til viðskiptavina. Þá vill hann reikna lífferilsútreikning á tilboðum og taka inn grænar áherslur og þróa aðferðir til að reikna heildarvirði tilboða.

Eiríkur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ríkiskaupa, sagðist vilja betri útboðsgögn og að þar sem kostur væri að verkkaupar brjóti niður útboðspakka niður á einstakar iðngreinar. Hann sagðist vilja að hönnuðir hafi meiri aðkomu að framkvæmdum á verktíma til að skilaboð og fyrirspurnir komist milliliðalaust milli verktaka og hönnuða. Hann nefndi að verkkaupar ættu að fái fagaðila úr iðngreinunum til að rýna hönnunargögn áður en þau fara inn í útboðsgögn. Hann sagði að gæta þurfi að því að huglægt mat kunni að vera ógagnsætt og þegar aðrir hlutir en verð eru metnir þarf fyrirfram að liggja ljóst fyrir hvernig það mat sé unnið og hvað sé lagt til grundvallar. Eiríkur sagði það geta verið mikil áskorun að taka þátt í útboðsverki sem er ekki fullhannað þegar það er sett í útboð. Hann nefndi dæmi um útboðsgögn sem samanstanda af 30 teikningum en þegar hefja á verk séu komnar 150 teikningar sem mögulega breyta verulega þeim forsemdum sem verktaki hafi getað lesið út úr útboðsgögnunum.

Ólafur Steingrímsson, teymisstjóri á innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sagði að stefnt væri að því að auka rafræna ferla í útboðsgerð til að einfalda smærri aðilum á markaði að taka þátt í útboð á vegum borgarinnar. Mikilvægt væri að lágmarka óvissu ásamt því að skilmálar og ákvæði í útboðsgögnum séu skýr þannig að dýrmætum tíma sé ekki sóað. Hann sagðist vilja aukið samtal við aðila á markaði og einskonar markaðskönnun á þeim tæknilausnum sem í boði eru áður en ráðist er í útboð, þannig sé möguleiki á að finna nýjar og hagkvæmar lausnir sem lækka kostnað og auka gæði útboðsverkefna.  Aðspurður um hvenær vænta megi þess að útboð um viðhald götulýsingar fari á almenna markaðinn sagði Ólafur að þetta mál væri á borði lögfræðinga Reykjavíkurborgar og að margir aðilar t.d. nefndir og ráð kæmu að málinu áður en endanleg niðurstaða næst um framkvæmd.

Í lok pallborðsumræðna var boðið upp á spurningar úr sal þar sem meðal annars var farið inn á hvort eðlilegt væri að fyrirtæki þurfi að vera búin að vinna sér inn einhverja sögu áður en það fær að taka þátt í opinberum útboðum og hvað veldur að örútboðaleiðin sé ekki meira notuð af verkkaupum sem eru aðilar að rammasamning. Einnig var umræða um heilbrigðisvottorð fyrirtækja og sagði Jóhanna Klara að slík vottorð væru gríðarlega mikilvægt mál fyrir byggingamarkaðinn. Hún sagði Samtök iðnaðarins leggja mikla áherslu á að gera heilbrigðisvottorð fyrirtækja að veruleika og að koma á regluverki um kennitöluflakk.

Upptaka frá ráðstefnunni er hér : https://vimeo.com/558104286

   

Hjörleifur Stefánsson, formaður SART 

 

  Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri SART

 

Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI     

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna

Guðjón L Sigurðsson, rafiðnfræðingur og ljósvistarhönnuður IALD, LISKA     

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI

Björgvin Víkingssoin, forstjóri Ríkiskaupa    

Eiríkur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fagtækni

 

Ólafur Steingrímsson, teymisstjóri innkaupasrifstofur Reykjavíkurborgar

Fleiri myndir frá ráðstefnunni eru hér: MYNDIR

Stjórn SART 2021 - 2022

Stjórn SART er skipuð formanni sem kosinn er til tveggja ára í senn auk kjörinna fulltrúa aðildarfélaga þar sem hvert aðildarfélag fær einn stjórnarmann fyrir hverja byrjaða 50 félagsmenn.

 

Stjórn SART 2021 - 2022 

 Hjörleifur Stefánsson  Formaður
 Pétur H Halldórsson  FLR Varaformaður  
 Magnús Guðjónsson  FRVL
 Sævar Óskarsson  FRVF
 Aðalsteinn Þ Arnarsson   FRN
 Svanur F Jóhannsson   FRA
 Magnús Gíslason   FRS
 Arnbjörn Óskarsson  RS
 Sigurður Gunnarsson   FRT
 Helgi Rafnsson  FLR
 Friðrik Fannar Sigfússon  FLR

 

Stjórn SART 2021-2022 ásamt framkvæmdastjóra, á myndina vantar Sigurð Gunnarsson formann FRT

 

Framkvæmdastjórn SART

Framkvæmdastjórn SART 2021-2022

Frá vinstri: Pétur H Halldórsson, Helgi Rafnsson, Hjörleifur Stefánsson og Svanur Freyr Jóhannesson

Aðalfundur SART 2021

Aðalfundur SART var haldinn föstudaginn 28. maí sl. á Grand Hótel
Formaður SART Hjörleifur Stefánsson var sjálfkjörinn formaður til næstu tveggja ára.
Reikningum félagsins voru gerð skil og Lárus Andri Jónsson og Arnbjörn Óskarsson voru kosnir skoðunarmenn reikninga félagsins. Fluttar voru skýrslur aðildarfélaga um störf þeirra á liðnu starfsári auk þess sem gerð var grein fyrir starfi helstu stjórna og nefnda.
 Að auki kynnti Adri R. Haraldsson yfirstandandi verkefni um samræmdar magntölulýsingar undir forustu Ákvæðisvinnustofu Rafiðna. Farið var yfir niðurstöður viðhorfskönnunar SART, Steinunn Pálmadóttir lögfræðingur á Lögfræðisvið SI kynnti þjónustu sem félagsmönnum stendur til boða á endurgjalds auk þess sem kynntur var uppfærður samningur SART við RSÍ um aðgang félagsmanna SART að Sjúkrasjóði RSÍ.
Að aðalfundi loknum bauð Johan Rönning, Reykjafell og Smith & Norland fundarmönnum til veglegs hádegisverðar.
Fundargerð aðalfundar verður aðgengileg seinna í vikunni undir mínum síðum á vef SART.

Hjörleifur Stefánsson, formaður SART

 

Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóri SART

Pétur Hákon Halldórsson, formaður FLR

Andri Reyr Haraldsson, framkvæmdastjóri Ákvæðisvinnustofu rafiðna

Kristbjörn Óli Guðmundsson, Löggiltur rafverktaki og framkvæmdastjóri Eðalraf ehf.

Aðalfundur SART 28. maí á Grand Hótel

 

 

Aðalfundur SART

Aðalfundur Samtaka rafverktaka, SART, verður haldinn á Grand Hótel föstudaginn 28. maí kl. 09.00-12.00.

Að þessu sinni verður fundurinn haldinn í ráðstefnusalnum Háteig 4 hæð.

Dagskrá aðalfundar er samkv. 22. gr. í samþykktum SART:

  1. Formaður og framkvæmdastjóri gera grein fyrir störfum stjórna og skrifstofu
    fyrir liðið ár.
  2. Reikningar samtakanna fyrir liðið reikningsár.
  3. Formenn aðildarfélaga eða fulltrúar þeirra gera grein fyrir sínum félögum.
  4. Umræður og afgreiðsla mála sem á löglegri dagskrá eru.
  5. Kosning formanns.
  6. Kosning tveggja skoðunarmanna og varamanna þeirra.
  7. Viðhorfskönnun SART
  8. Lögfræðiþjónusta SI
  9. Staðlaðar magntölulýsingar, kynning frá Ákvæðisvinnustofu rafiðna
  10. Önnur mál.

Eftir fundinn bjóða Reykjafell, Johan Rönning og Smith & Norland fundargestum til hádegisverðar á Setrinu.

Útboðsmarkaður rafverktaka - Hvert stefnum við?

Samtök rafverktaka, SART, boða til ráðstefnu sem verður í beinu streymi föstudaginn 28. maí. kl.14.00-15.30.

Ráðstefnan sem ber yfirskriftina Útboðsmarkaður rafverktaka - Hvert stefnum við? er haldin í framhaldi af aðalfundi SART en er öllum opinn sem áhuga hafa á málefninu.

Stórstígar breytingar hafa orðið síðustu ár á útboðsmarkaði rafverktaka en hafa þessar breytingar orðið til góðs? Á fundinum verður leitast við að fá svör við þessari og fleiri spurningum sem brenna á löggiltum rafverktökum.

Ráðstefnustjóri er Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri SART.

Dagskrá

Hjörleifur Stefánsson, formaður SART
Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI
Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna
Guðjón L. Sigurðsson, rafmagnsiðnfræðingur og ljósvistarhönnuður IALD, Liska
Pallborðsumræður

Jóhanna Klara Stefánsdóttir sviðsstjóri Mannvirkjasviðs SI
Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa
Ólafur Steingrímsson, teymisstjóri, innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar
Eiríkur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fagtækni.
Til að nálgast streymið er hægt að skanna inn QR-kóðann hér fyrir neðan eða nálgast streymið hér: https://youtu.be/5CYqhdI98MY

 

 

 

Viðhorfskönnun meðal félagsmanna

Í dag var sendur tölvupóstur á löggilta rafverktaka og rafeindavirkja innan SART með hlekk á viðhorfskönnun sem SART stendur fyrir.
Könnunin er liður í undirbúning fyrir stefnumótunarvinnu SART sem farið verður í á haustdögum.
Ekki er hægt að rekja svörin til þátttakenda en góð þátttaka gefur skýrari sýn á viðhorf og væntingar félagsmanna til SART.
Við bindum vonir við að góða þátttöku og hlökkum til að sjá niðurstöður könnunarinnar.


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.