Nýjar leiðbeiningar við Byggingarreglugerðina hafa litið dagsins ljós.
Það er mikilvægt að lögiltir rafverktakar þekki til þessara leiðbeininga og hafi þær til hliðsjónar í störfum sínum.
Leiðbeiningarnar snúa að greinum 6.12.2 Inntaksrými og 6.12.4 Töfluherbergi. Sjá nánar hér og hér.
Flestir félagsmenn þekkja til máls sem Fagnefnd SART hefur unnið að síðastliðið ár og snýr að athugasemdum sem gerðar hafa verið við sverleika töflutauga.
Séstök athygli er vakin á því að leiðbeiningarnar taka á því að hitastig í töfluherbergjum ætti ekki að fara yfir 25° C
Það er því á ábyrgð húseiganda / byggingarstjóra að bregðast við ef hitastig töfluherbergja fer yfir 25°C
Hjá Samtökum iðnaðarins er starfræktur Tæknihópur lagnakerfa sem samanstendur af formönnum Félags pípulagningameistara, Samtaka rafverktaka og Félags blikksmiðjueigenda. Þessir aðilar ásamt lagnahönnuði frá VSÓ komu saman fyrir skömmu og ræddi meðal annars gæði útboðsgagna.
Tilgangurinn var að leita leiða til að bæta starfsumhverfi þeirra iðngreina sem að hópnum standa. Fundarmenn fóru yfir samspil tæknikerfa sem heyrir undir hverja iðngrein fyrir sig og þá staðreynd að tæknikerfi í nýjum mannvirkjum verða sífellt fullkomnari og gera á sama tíma kröfur til góðs aðgengis svo hægt sé að sinna daglegum rekstri kerfana sem og viðhaldi þeirra.
Hópurinn var sammála um að nauðsynlegt væri að gefa hönnun rýmra vægi í undirbúningi verklegra framkvæmda enda myndi það skila sér í lægri framkvæmdakostnaði þegar verklegar framkvæmdir hæfust. Á fundinum kom fram að of algengt væri að reynt sé að halda niðri heildarkostnaði með því að spara í hönnun sem valdi því að mannvirki sé ekki nægjanlega vel undirbúið og verk sjaldnast fullhannað áður en leitað sé tilboða í framkvæmdina. Það hafi mikil áhrif á gæði útboðsgagna, skilningur og væntingar verkkaupa og verktaka væri ekki sá sami sökum vanhönnunar og að tíma- og kostnaðaráætlanir stæðust ekki. Hópurinn var sammála um að ef verkkaupar fjárfesti í ríkari mæli í hönnun, bæði hvað varðar kostnað og tíma, yrði það til verulegra bóta og eðlilegt væri að fullhanna verklegar framkvæmdir áður en þær væru boðnar út og þær hafnar. Með slíkri fjárfestingu verkkaupa væri unnt að draga verulega úr áhættu á því að tíma- og kostnaðaráætlanir mannvirkis fari fram úr áætlun.
Á fundinum voru nefnd mýmörg dæmi um framkvæmdir þar sem tíma- og kostnaðaráætlanir hafi farið úr böndunum og töldu fundarmenn að rót vandans lægi ekki sýst hjá ríki og sveitarfélögum sem iðullega væru að keppast við að hefja framkvæmdir innan kjörtímabils.
Á myndinni eru Böðvar Ingi Guðbjartsson formaður Félags pípulagningameistara, Hjörleifur Stefánsson formaður Samtaka rafverktaka SART, Sævar Jónsson formaður Félags blikksmiðjueigenda, Elísa Arnarsdóttir viðskiptastjóri Félags blikksmiðjueigenda, Kristján D. Sigurbergssons framkvæmdastjóri SART og viðskiptastjóri Félags pípulagningameistara og Sigurður Ágúst Arnarson vélaverkfræðingur M.Sc hjá VSÓ.
Á vef SI má lesa svar SI og SART við erindi Rafbílasambands Íslands sem hefur gert athugasemdir við bréf sem sent var félagsmönnum SART á síðasta ári og vaðar kröfur um hleðslustöðvar.
Svaið var sent á stjórn Rafbílasambands Íslands, þá Tómas Kristjánsson, Guðjón Hugberg Björnsson og Emil Kára Ólafsson.
Ráðstefna samtaka rafverktaka og pípulagningameistara á Norðurlöndunum, NEPU, var haldin 23.-26. ágúst í Finnlandi. Fulltrúar frá Íslandi á ráðstefnunni voru Hjörleifur Stefánsson formaður Samtaka rafverktaka, SART, Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, FP, Gunnar Sigurjónsson frá FP auk Kristjáns D. Sigurbergssonar, framkvæmdastjóra SART og viðskiptastjóra FP.
NEPU ráðstefnan er haldnir árlega og í fyrra var hún haldin á Íslandi. Á ráðstefnuna koma formenn og framkvæmdastjórar meistarafélaga í raf- og pípulögnum. Fulltrúar hvers lands höfðu framsögu í ákveðnum málum sem leiddi svo inn í umræður um stöðu viðkomandi málefnis í hverju landi fyrir sig.
Á ráðstefnunni urðu miklar umræður um menntamál en auk þess voru umræður um nýtingu sólarorku á norrænum slóðum þar sem Norðmenn kynntu mjög áhugaverðar upplýsingar sem þeir hafa tekið saman. En þess má geta að norsku rafverktakasamtökin, NELFO, hafa gefið út vandað fræðsluefni um nýtingu sólarorku í landbúnaði þar sem fram koma mjög ýtarlegar upplýsingar fyrir bændur annars vegar og rafverktaka hins vegar. Þá var töluverð umræða um markaðssetningu á varmadælum og þekkingu sem þarf að vera til staðar við val á búnaði og uppsetningu á honum þannig að orkan og tæknilegir möguleikar búnaðarins nýtist sem best.
Á ráðstefnunni hélt Aapo Cederberg, eigandi og framkvæmdastjóri Cyberwatch Finland, áhugavert erindi um gagnaöryggi og nauðsyn þess að gera ráðstafanir til að verjast vaxandi ógn af völdum tölvuglæpamanna og nefndi sérstaklega að Finnar hafi orðið varir við mikla aukningu á tölvuglæpum eftir innrás Rússa í Úkraínu. Þá má nefna að Kim Mattsson, Security Policy Advisor, kynnti fyrir fundarmönnum áherslur sem stjórnvöld í Finnlandi eru að beina til finnskra fyrirtækja í ljósi aukinnar ógnar frá Rússlandi eftir inngöngu Finna í NATO.
Meistaradeild Samtaka iðnaðarins, MSI, skorar á skólastjórnendur verknámsskóla að veita þeim nemendum forgang í iðnnám, sér í lagi við innritun í kvöldskóla, sem hafa lokið hluta starfsnáms og/eða starfað í iðngrein sæki þeir um að hefja eða ljúka námi í viðkomandi iðn. Þetta kemur fram í bréfi sem MSI hefur sent skólastjórnendum verknámsskóla. Það sama eigi við um þá aðila sem farið hafa í gegnum raunfærnimat og sækja um skólavist til að ljúka formlegu námi. Væri þessi að gerð til þess fallin að fjölga iðnmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaði og mæta brýnni þörf iðnfyrirtækja.
Í bréfinu segir að í „Skýrslu starfshóps um innritun í starfsnám á haustönn 2022“, komi fram að þeim sem hafnað hafi verið um skólavist í starfsgreinum séu flestir eldri en 19 ára. Í húsasmíði og grunnnámi bygginga- og tæknigreina sé hlutfall 30 ára og eldri 37%. Á sama tíma sé mikil eftirspurn á vinnumarkaði eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Að mati stjórnar MSI sé hér um skýra skekkju að ræða sem nauðsynlegt sé að bregðast við sem fyrst.
Endurskoða þurfi aðferðafræði við úthlutun á skólavist
Þá kemur fram í bréfinu að við innritun í kvöldskóla sé algengasta reglan sú að „fyrstur kemur fyrstur fær“ sem hafi í raun þau áhrif að ekki sé forgangsraðað í námið í þágu þeirra sem séu að reyna að ljúka námi til starfsréttinda eða séu nú þegar starfandi án réttinda í viðkomandi iðn og vilji öðlast viðeigandi réttindi. Þessa aðferðarfræði við úthlutun á skólavist þurfi að mati stjórnar MSI að endurskoða.
Jafnframt segir í bréfinu að þar sem kvöldskólar eða dreifinám séu í boði hafi það verið aðgengilegasta skólaleiðin fyrir þá einstaklinga sem séu komnir með fjölskyldu og séu að reyna að ná sér í réttindi í faginu sem þeir séu starfandi við. Einstaklingar sem hafi farið í raunfærnimat þurfi jafnframt raunhæfar leiðir til að ljúka námi í samræmi við niðurstöður raunfærnimatsins. Breytt forgangsröðun gæti komið fjölmörgum einstaklingum hratt og örugglega út á vinnumarkaðinn með full réttindi.
Undir bréfið skrifa Jón Sigurðsson, formaður MSI, og Sævar Jónsson, varaformaður MSI.
Fulltrúar aðildarfélaga Rafstaðlaráðs tóku þátt í vinnustofu norrænna rafstaðlastofnana, NOREK, sem haldin var í byrjun júní í Kaupmannahöfn undir yfirskriftinni „Young professionals“. Markmið vinnustofunnar var að kynna staðlavinnu fyrir ungum sérfræðingum, undir 36 ára að aldri, sem hafa áhuga á eða hagsmuni af stöðlun og samræmismati eða sviðum, s.s. öryggi, áreiðanleika, nýsköpun og þróun, auk þess að vera áhugasöm um að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Fulltrúar frá Íslandi á vinnustofunni voru Bergrós Björk Bjarnadóttir, Guðmundur Valsson, Andri Viðar Kristmannsson og Sólon Ívar Símonarson. Auk þess voru Snædís Danielsdóttir og Sigríður Jónsdóttir sem báðar stunda nám í tækniháskólanum DTU.
Bergrós Björk Bjarnadóttir var fulltrúi Samtaka rafverktaka, SART, í vinnustofunni en hún er löggiltur rafverktaki og rekur fyrirtækið Neisti rafverktakar ásamt því að vera varamaður í stjórn Félags löggiltra rafverktaka, FLR. Bergrós segir að um hafi verið að ræða vinnustofu fyrir unga fagmenn í rafmagnsgreinum. „Þarna komum við saman a.m.k. 50 einstaklingar til þess að finna nýjar lausnir til þess að tækla alheimsmarkmið SDG 7 en á hverju ári er nýtt mál tekið til skoðunar. Í þetta skipti áttum við að vinna í hópum við að búa til staðal sem gæti tryggt fólki sjálfbæran og áreiðanlegan orkugjafa um allan heim. Margar tillögur um staðla komu upp á yfirborðið en það sem stóð upp úr að mati “dómnefndar” var hugmynd um að hafa rafhlöður í heimahúsum. Tillagan var þess efnis að reiknuð yrði notkun fyrir hvert heimili og stærð rafhlaðna eftir því, síðan myndi álagið deilast og jafnast þar sem hlaðið yrði inn á rafgeymana en ekki alla í einu.“
Hún segir að meginmarkmið vinnustofunnar sé tað kynna ungum fagmönnum hvernig rafstaðlaráð virkar og vinna upp áhuga fólks til að koma inn í nefndir sem og að kynnast jafningjum á Norðurlöndunum. „Það sem kom mér mest á óvart var að þrátt fyrir að staðlar séu vissulega nauðsynlegir til að allt virki og öryggið sé í fyrirrúmi þá eru staðlar á borð við IEC og ISO helst til þess að gæta hagsmuna heildsala og fyrirtækja í Evrópu sem og einstakra landa að gæta sinna hagsmuna.“
Á myndinni eru Sólon Ívar Símonarson frá RARIK, Andri Viðar Kristmannsson frá RARIK, Snædís Daníelsdóttir frá DTU, Sigríður Jónsdóttir frá DTU, Bergrós Björk Bjarnadóttir frá Neisti rafverktakar og Guðmundur Valsson frá Staðlaráði.