(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Aðalfundur rafverktaka á Norðurlandi haldinn á Akureyri

Félagsmenn ræddu stöðu greinarinnar, samþykktu reikninga og völdu nýja stjórn

Aðalfundur Félags rafverktaka á Norðurlandi (FRN) fór fram á Hótel KEA á Akureyri 8. janúar 2026. Fundurinn var löglega boðaður og haldinn samkvæmt áður auglýstri dagskrá. Fjölmenni mætti til fundarins og voru fundargerðir og reikningar samþykkt einróma.

Skýrsla stjórnar og samþykktir reikningar

Aðalsteinn Þór Arnarsson, formaður FRN, flutti skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu starfsári. Þá lagði Gunnar Ingi Jónsson fram reikninga félagsins fyrir árið 2024 sem voru samþykktir án athugasemda.

Breytingar í stjórn

Í stjórnarkjöri var Eva Dögg Björgvinsdóttir kjörin sem ritari félagsins í stað Gísla Sigurðssonar sem lokið hafði 3 ára kjörtímabili og sóttist ekki eftir endurkjöri. Þá óskaði Jónas R. Magnússon, varamaður, eftir að láta af störfum og tók Gunnar Valur Eyþórsson sæti hans sem varamaður. Báðar kosningarnar fóru fram með einróma samþykki.

Nýkjörin stjórn FRN er þannig skipuð:

  • Aðalsteinn Þór Arnarsson, formaður
  • Gunnar Ingi Jónsson, gjaldkeri
  • Eva Dögg Björgvinsdóttir, ritari
  • Gunnar Valur Eyþórsson, varamaður

Aðalsteinn Þór Arnarsson situr áfram í stjórn Samtaka rafverktaka (SART) sem aðalmaður, en Gunnar Ingi Jónsson var endurkjörinn sem varamaður í stjórn SART.

Áhersla á sólarorkuver og vinnustaðaskírteini

Rætt var um rafræn vinnustaðaskírteini frá www.veistuhvar.is  og lauslega sýnt hvernig kerfið virkar. Félagsmenn njóta sérstakra kjara kjósi þeir að innleiða rafrænn innustaðaskírteinin.

Þá flutti Óskar Frank Guðmundsson, fulltrúi HMS, erindi um sólarorkuver og öryggiskröfur sem þeim tengjast. Hann lagði áherslu á að rafverktaki sem setur upp sólarorkuver verður að ganga úr skugga um hvort umfang framleiðslunnar fari yfir mörk neysluveitu yfir í að vera rafveita.

Þá fór hann yfir þær viðbætur sem rafverktaki þarf að bæta við öryggisstjórnunarkerfið sitt þegar hann er að vinna við sólarorkuver.Lokaorð

Fundinum lauk kl. 18:58 eftir gagnlegar og upplýsandi umræður um málefni rafverktaka. Mikil áhersla var lögð á faglega framkvæmd starfa, aukna öryggisvitund og áframhaldandi þróun innan greinarinnar.

 

Kynning á tilboðsgerðarkerfi fyrir raflagnaverk

Síðustu árin hefur verið í smíðum kerfi til að útbúa tilboð í raflagnaverk sem byggir á Ákvæðisvinnugrundvelli rafiðna.

Tilgangur þess er að samræma notkun greiðsluliða í tilboðsgerð, spara notendum kerfisins vinnu og minnka óvissu í tilboðum og framkvæmd verka.

Nú er kerfið komið á það stig aðþað er tilbúið til almennrar notkunar.

Félögum í SART er boðið á kynningu á kerfinu mánudaginn 12. janúar næstkomandi kl. 11:30 – 12:45 hjá Rafmennt á Stórhöfða 27 í Reykjavík, stofu 13 gengið inn frá kjallara. Boðið verður upp á léttan hádegisverð.

Óskað er eftir skráningu: Skráningarhlekkur

Jóla- og áramótakveðja

Nýtt námskeið hjá Rafmennt: Alþjóðlega vottuð þekking á umferðarljósum og stýringum

 

 

Nýtt námskeið hjá Rafmennt: Alþjóðlega vottuð þekking á umferðarljósum og stýringum    

Rafmennt hefur þróað nýtt sérhæft námskeið sem ætlað er löggiltum rafverktökum og tæknimönnum sem starfa eða hyggjast starfa við uppsetningu og viðhald umferðaljósakerfa. Námskeiðið heitir Umferðarljós og stýringar (STÝR16UMF) og verður í boði frá og með febrúar 2026. Að námskeiði loknu fá þátttakendur alþjóðlega vottun sem gildir í fimm ár og uppfyllir kröfur sveitarfélaga um hæfni til starfa á þessu sviði.

Þörf sem kom frá sveitarfélögunum

Frumkvæðið að námskeiðinu kom frá sveitarfélögum víðs vegar um land sem leituðu til Rafmenntar eftir sérhæfðri fræðslu fyrir rafverktaka og tæknifólk. Sveitarfélögin munu gera kröfu um slíka menntun í framtíðarsamningum og útboðum er varða uppsetningu og rekstur umferðarljósakerfa.

Hagnýt þjálfun og alþjóðleg viðmið

Námskeiðið sameinar bóklega kennslu og verklega þjálfun. Fjallað verður meðal annars um:

  • Evrópustaðla (EN 12368, EN 12675, EN 50556 o.fl.) og íslenskar reglugerðir
  • Grunnvirkni ljósastýringar, skynjara og stjórnbúnaðar
  • Öryggisatriði, rafmagnsöryggi og netöryggi
  • Uppsetningu, prófanir, gangsetningu og bilanagreiningu
  • Reglubundið viðhald yfir 24 mánaða tímabil
  • Ábyrgð og áhættu í tengslum við bilun og viðbrögð

Námskeiðið fer fram á ensku.

Skyldunámskeið og skírteini

Til viðbótar við aðalnámskeiðið þurfa þátttakendur að ljúka námskeiðinu Merking vinnusvæða, sem kennt er í samstarfi við Opna háskólann. Rafmennt býður afslátt af því námskeiði fyrir þá sem nýta Endurmenntunarsjóð Rafiðnarins. Rafmennt heldur jafnframt utan um skírteini og gildistíma þeirra.

Stuðlar að öruggari og faglegri uppbyggingu innviða

Með námskeiðinu styður Rafmennt við faglega þróun í greininni og kemur til móts við skýra þörf sveitarfélaga fyrir hæft starfsfólk á þessu sviði. Slíkt námskeið fellur vel að markmiðum Samtaka rafverktaka um að efla þekkingu innan aðildarfyrirtækja Sart, ásamt því að auka öryggi og tryggja gæði í framkvæmdum sem snerta opinbera innviði. Með vottun á alþjóðlegum stöðlum er einnig stuðlað að bættri samkeppnishæfni íslensks iðnaðar á þessu sviði.

 

Félag rafverktaka á Suðurlandi - Aðalfundur

 

Aðalfundur Félags rafverktaka á Suðurlandi haldinn á Selfossi

Aðalfundur Félags rafverktaka á Suðurlandi (FRS) fór fram fimmtudaginn 11. desember 2025 á Hótel Selfossi. Fundurinn hófst á kynningu frá Ara Bjarnasyni um rafræn vinnustaðaskírteini frá  „Hver ertu?“ þar sem fundarmenn fengu innsýn í það hvernig nota má rafrænu vinnustaðaskírteini til að tryggja öryggi í viðskiptum auk þess að halda utan um réttindanámskeið og staðfestingar á menntun.´

Áhersla á aukið félagsstarf og tengslanet

Magnús Gíslason, formaður FRS, fór yfir starfsemi félagsins á liðnu ári og vakti sérstaka athygli á mikilvægi þess að efla félagsstarfið umfram hefðbundna aðalfundi. Hvatti hann til aukins samstarfs innan félagsins og við önnur samtök iðnmeistara á svæðinu. Meðal hugmynda voru fræðslufundir, skoðunarferðir og aðrir félagslegir viðburðir sem styrkja tengslanet og samstöðu innan greinarinnar.

Í skýrslu formanns kom einnig fram að FRS hefði ásamt samstarfsaðilum styrkt rafdeild FSU með nýju þjálfunartæki, sem nýtist við kennslu í mótortengingum. Lýsir það vilja félagsins til að styðja við menntun framtíðar fagmanna á Suðurlandi.

Góð verkefnastaða og framtíðarsýn

Verkefnastaða rafverktaka á svæðinu er sögð góð, með fjölda opinberra framkvæmda í gangi eða í undirbúningi, þar á meðal Hvammsvirkjun og nýtt fangelsi í Stóra-Hrauni. Þá var greint frá þátttöku félagsmanna í stefnumótunarfundi SART í haust, þar sem áhersla var lögð á faglega uppbyggingu og framtíðarsýn rafverktakageirans.

Einnig kom fram að rætt hafi verið um hugsanlega sölu á sumarhúsi SART í Grímsnesi, með það að markmiði að fjárfesta í orlofseign sem betur nýtist félagsmönnum – mögulega erlendis.

Kosningar og samþykktir

Reikningar félagsins voru samþykktir samhljóða. Engar breytingar voru lagðar til á félagsgjöldum né samþykktum félagsins að þessu sinni. Kosið var í stjórn samkvæmt lögum félagsins, og heldur núverandi stjórn áfram störfum með örlitlum breytingum: Magnús Gíslason, Guðjón Guðmundsson og Ragnar Ólafsson sitja í stjórn, og Hermann G. Jónsson er varamaður. Þá voru kjörnir skoðunarmenn og fulltrúar í stjórn SART.

Mikilvægi öflugra hagsmunasamtaka

Fundurinn endaði á kvöldverði í boði birgja. Í umræðum kom skýrt fram að félagsmenn vilja sjá aukna virkni í félagsstarfi og samstarfi innan greinarinnar. Félagsskapurinn gegnir mikilvægu hlutverki í því að styðja við fagmennsku og samkeppnishæfni rafverktaka á Suðurlandi.

 

Árangursríkt starfsár og ný stefna í mótun hjá Félagi rafeindatæknifyrirtækja

 

Aðalfundur FRT fór fram nýverið þar sem farið var yfir viðburðaríkt starfsár. Ljóst er að FRT stendur á tímam

Á starfsárinu 2025 hefur Félag rafeindatæknifyrirtækja (FRT) lagt ríka áherslu á að efla fagmennsku, tryggja réttindi greinarinnar og styrkja stöðu rafeindavirkja sem löggiltrar iðngreinar í tæknivæddu samfélagi. Unnið hefur verið ötullega að hagsmunamálum félagsmanna og stefnumótun til framtíðar.

Nýir félagsmenn og virk þátttaka

Félagið stækkaði á árinu með nýjum félagsmönnum og á starfsárinu hefur stjórn haldið fjóra fundi auk vinnufunda um stefnumótun. Einnig hefur formaður FRT tekið virkan þátt í fundum á vegum Starfsgreinaráðs, SART, Rafmenntar og Samtaka iðnaðarins (SI), þar sem fjallað hefur verið um margvísleg mál er varða menntamál, lagasetningu og réttindi iðngreina.

Áhersla á menntamál og faglega umræðu

Menntamál voru í brennidepli á árinu. Starfsgreinaráð rafeindavirkja fjallaði um nýja námskrá og notkun ferilbóka, en deilur sköpuðust um innleiðingu námskrárinnar og drógu flestir skólar sig út úr verkefninu. FRT hefur einnig verið virkt í að vekja athygli á mikilvægi lögverndaðrar fagmenntunar og kallað eftir því að opinberir aðilar noti rétt starfsheiti við útboð og auglýsingar.

Samstarf og sýnileiki

Félagið tók þátt í auglýsingaherferð SART og hefur lagt áherslu á að kynna starfssvið rafeindavirkja. Einnig hefur verið unnið markvisst að því að tryggja viðurkenningu á eftirlitsskyldu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með fjarskiptalögnum samkvæmt ÍST 151 staðlinum.

Stefnumótun og framtíðarsýn

Í nóvember stóð FRT fyrir málþingi þar sem unnin var greinargerð og S.V.Ó.T. greining fyrir félagið. Þessi vinna er mikilvægur grunnur fyrir áframhaldandi stefnumótun og undirstrikar ásetning félagsins um að tryggja menntun, fagmennsku og réttindi iðngreinarinnar. Niðurstöður málþingsins verða grunnur að innleiðingu nýrrar stefnu á árinu 2026.

Formannsskipti og þakkir

Á aðalfundinum tilkynnti Hjörtur Árnason að hann léti af formennsku eftir yfir tuttugu ára starf í stjórn FRT, þar af fjölda ára sem formaður. Hann þakkaði samstarfsfólki sínu og sérstaklega Kristjáni Daníel Sigurbergssyni fyrir traust og gott samstarf í gegnum árin.

Talsverð endurnýjun var í stjórn félagsins en hana skipa:

Formaður: Guðni Einarsson

Meðstjórnendur: Halldór Gunnarsson og Sigurður Gunnarsson

Varamenn: Davíð Valdimar Arnalds og Ólafur Friðrik C. Rowell

 Pétur Hákon Halldórsson formaður Sart þakkar Hirti Árnasyni fráfarandi formanni FRT fyrir gott starf í þágu félagsmanna.


Félag rafeindatæknifyrirtækja er aðildarfélag SART og gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja gæði og öryggi í fjarskipta- og rafeindatæknigreinum. Með markvissri stefnumótun og sterkri faglegri sýn vinnur félagið að því að efla greinina og bæta starfsumhverfi rafeindavirkja á Íslandi.

 


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.