(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Stofnun Nemastofu atvinnulífsins

Fjölmenni var í húsakynnum IÐUNNAR  í gær þegar undirritað var samkomulag um stofnun Nemastofu atvinnulífsins.  Að Nemastofunni standa RAFMENNT og IÐAN og er Nemastofan samstarfsvettvangur atvinnulífsins um bætt vinnustaðanám og fjölgun faglærðs starfsfólks.
Lögð verður áhersla á að fjölga fyrirtækjum sem taka nema á vinnustaðanámssamning, með því meðal annars að aðstoða forsvarsmenn fyrirtækja sem starfa í sérhæfðum greinum við að koma á tengingum milli fyrirtækja sem saman geta veitt nemum alla þá þjálfun sem rafræn ferilbók kveður á um að veitt sé í vinnustaðanámi.


Á myndinni hér að ofan eru Hjörleifur Stefánsson formaður SART, Þór Pálsson framkvæmdastjóri RAFMENNT, Margrét Halldóra Arnarsdóttir formaður FÍR, Tómas Guðmundsson rafvirkjameistari TG raf, Áslaug Rós Guðmundsdóttir framkvæmdastóri TG raf, Pétur H Halldórsson varaformaður SART, Kristján D. Sigurbergsson framkvæmdatjóri SART, Helgi Rafnsson varaformaður FLR.

Við stofnun Nemastofu voru veittar viðurkenningar til Tímadjásn - gullsmíðaverkstæði og skartgripaverslun, Bílaumboðsins BL og TG raf sem öll eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í þjálfun og kennslu nema á vinnustað og eru almennt góðar fyrirmyndir sem lærdómsfyrirtæki í viðkomandi starfsgrein. Fyrirtækið TG raf sem staðsett er í Grindavík er í Rafverktakafélagi Suðurnesja einu af átta félögum sem mynda SART. 

TG raf var stofnað árið 2004 á grunni fyrirtækisins Rafborg sem var rekið af afa og síðar föður Tómasar Guðmundssonar rafvirkjameistara – Tómas er því þriðji ættliður sem rekur rafverktakafyrirtæki í fjölskyldunni. Við stofnun TG raf varð til öflugt fyrirtæki með mjög fjölþætta starfsemi og þjónustu við skip og sjávarútveg, iðnað og mannvirki með samtals um 30 starfsmönnum, þar af fimm nema. Frá árinu 2015 hefur fyrirtækið aðstoðað starfsmenn sem hafa ekki lokið námi að ná sér í réttindi. Hér er hlekkur á myndband þar sem Tómas segir frá fyrirtækinu og stefnu þess í nemamálum.

SART óskar eigendum og starfsfólki TG raf til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu fyrir vel unnin störf.

 

Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra afhendir Tómasi Guðmundssyni Hvatningarverlaun Nemastofu atvinnulífsins

Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra, Tómas Guðmundsson og Ólafur Jónsson verkefnisstjóri Nemastofu.

Aðalfundur SART var haldinn á Grand hótel föstudaginn 11 mars .

Fundinn sóttu fulltrúar rafverktaka af öllu landinu og að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum kynnti Hjörleifur Stefánsson formaður SART niðurstöðu stefnumótunarvinnu SART þar kom fram að SART hefur sett sér megin markmið í starfi samtakanna undir yfirskriftinni Hæfur mannauður, Skilvirkt regluverk, Markviss nýsköpun og Sterk neytendavitund. Nánari upplýsingar um stefnu SART fram til ársins 2025 verður á næstu dögum sett inn á heimasíðu SART.

Árni Sigurjónsson formaður Samtaka iðnaðarins ávarpaði fundarmenn og fór meðal annars yfir þá ákvörðun stjórnar SI að gera árið 2022 að ári Grænnar iðnbyltingar. Þá ræddi hann ítarlega stöðu iðnfyrirtækja inn í komandi kjaraviðræðu og fór yfir niðurstöður kortlagningar SI á kjaraáherslum ólíkra undirhópa.

Þór Pálsson framkvæmdastjóri RAFMENNT fjallaði um starfsemi fræðslusetursins. Undanfarin ár hefur aukin áhersla verið var lögð á fjarkennslu en kórónuveirufaraldurinn hraðaði þeirri þróun. Samtal milli meistara, Iðunnar, Rafmennt og stjórnvalda jókst til muna á árinu. Stofnað verður nýtt félag sem heitir Nemastofa atvinnulífsins sem á að tryggja að samtal eigi sér stað milli ólíkra aðila sem koma að menntun rafverktaka og annarra iðnaðarmanna. Þá fór framkvæmdastjóri RAFMENNTAR yfir rafræna ferilbók og varpaði upp útgáfu 1 félagsmönnum til upplýsingar. Þór hvatti félagsmenn til þess að taka að sér nema, það væri grundvallaratriði í menntun allra iðnaðarmanna að þau fengju starfsþjálfun hjá fyrirtækjum á markaði. Að lokum óskaði hann eftir því að félagsmenn myndu sækja sér smáforritið RAFMENNT sem er nýtt smáforrit fyrir einstaklingsmiðað áhættumat.

Fundarmönnum var tíðrætt um menntamál í rafiðnaði lagði Hjörleifur Stefánsson formaður SART eftirfarandi ályktun fyrir fundinn sem samþykkt ályktunina einróma.

Aðalfundur SART haldinn 11. mars 2022 lýsir yfir áhyggjum af þeim mikla fjölda nema sem sótt hafa um nám í rafiðngreinum en ekki komust að hjá verknámsskólum landsins. SART skorar á verknámsskólana að fjölga nemaplássum svo hægt sé að svara þessari ásókn í nám í rafiðngreinum. Á sama tíma ætla félagsmenn SART að leita allra leiða til að fjölga nemaplássum hjá fyrirtækjum sínum

 

Að aðalfundi loknum buðu Johan Rönning, Reykjafell og Smith & Norland fundarmönnum til hádegisverðar áður en haldið var í skoðunarferð í Jarðhitasýningu ON á Hellisheiði. En einnig fékk hópurinn kynningu frá VAXA life sem framleiðir smáþörunga í fullkominni verksmiðju í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar.

Aðalfundur SART 2022

Útboðsþing SI

Áramótakveðja

Margt hefur áunnist á árinu sem senn er á enda


Á Útboðsþingi SI sem haldið var 27. janúar kynntu 11 opinberir aðilar áætlanir um verklegar framkvæmdir sem fara áttu í útboð á árinu. Áætlanirnar gerðu ráð fyrir því að 139 milljörðum yrði varið til framkvæmda á vegum þessara aðila og var það hækkun um 7,4 milljarða frá því sem kynnt var á Útboðsþingi 2020. Það var ánægjulegt að opinberir aðilar hafa þannig svarað kallinu um aukna innviðauppbyggingu sem mótvægi við áhrifum Covid 19 á mannvirkja greinarnar.

Aðalfundur SART var haldinn 28. maí þegar staðan í sóttvörnum myndaði glugga sem gerði félagsmönnum kleift að að koma saman í raunheimum.  Á aðalfundinum var Hjörleifur Stefánsson endurkjörinn formaður til tveggja ára.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var eftirfarandi bókun borin upp og samþykkt samhljóða:

Aðalfundur SART haldinn 28.05.2021 felur aðildarfélögum SART að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir leppun í rafiðngreinum innan og utan samtakanna.

Það er vissulega mikil meinsemd í faginu sem við störfum við  að undir verndarvæng löggiltra rafverktaka skuli starfa fyrirtæki í eigu réttindalausra rafiðnaðarmanna sem mörg hver standa ekki skil á lögboðnum skuldbindingum hvorki faglegum né fjárhagslegum. Að sama skapi má flestum vera það ljóst að töluverð ógn við heilsu og öryggi neytenda stafar af vinnu réttindalausra við raflagnir.
Stjórnir aðildarfélaga SART hafa í þeim tilfellum sem félagsmenn hafa tilkynnt um brot á iðnlöggjöfinni falið lögfræðingum Samtaka iðnaðarins að kæra brotin til réttmætra yfirvalda.  Í framhaldi af slíkum kærum hafa allnokkrir réttindalausir rafiðnaðarmenn ásamt þeim löggiltu rafverktökum sem uppvísir eru að leppun verið boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglu sem fer með rannsókn brota af þessu tagi.
Í tengslum við aðalfund SART var einnig haldinn ráðstefna sem bar nafnið Útboðsmarkaður rafverktaka.
Góð þátttaka var á ráðstefnunni sem var haldin á Grand Hótel Reykjavík en jafnframt streymt á netinu. Hér má nálgast upptöku frá ráðstefnunni

Í sumar bauðst félagsmönnum SART að taka þátt í átaksverkefni stjórnvalda sem að uppfylltum ákveðnum skilyrðum styrktu fyrirtæki fjárhagslega til að ráða nema í rafiðngreinum til sumarstarfa. RAFMENNT hélt utan um þetta verkefni sem vakti verðskuldaða athygli og veitti fjölda rafiðnaðarnema vinnu í faginu.

Mikil ásókn er í nám í rafiðngreinum og því miður hafa verknámsskólarnir þurft að vísa frá miklum fjölda nema sem sóttu um skólavist á árinu. Í upphafi ársins var sett ný reglugerð um vinnustaðanám og Rafræn ferilbók leit dagsins ljós. RAFMENNT ásamt IÐUNNI hafa verið í fararbroddi fyrir hönd atvinnulífsins í vinnu tengdri þessum breytingum. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá hversu samstilltar þessa endurmenntunarstofnanir iðnaðarins hafa verið í hagsmunagæslu fyrir hönd atvinnurekenda við innleiðingu breytinga tengdum nýrri reglugerð og rafrænum ferilbókum mannvirkjagreinanna.

Stefnumótunarfundur SART var haldinn í byrjun október þar sem á þriðja tug löggiltra rafverktaka af öllu landinu tóku þátt og verður framtíðarsýn SART gefin út í byrjun ársins 2022.

Útleiga á orlofshúsi SART hefur gengið vel á árinu og hefur reglulegu viðhaldi og endurnýjun búnaðar verið vel sinnt. Ástæða er til að vekja athygli félagsmanna á orlofshúsinu og því skemmtilega umhverfi sem húsið stendur í. Nánari upplýsingar eru á vef SART

Undir lok ársins gaf Reykjavíkurborg það út að borgin ætlaði að bjóða út viðhald og endurnýjun götulýsingar í Reykjavík en í maí sl. höfðu Samtök iðnaðarins betur í máli gegn Reykjavíkurborg þegar kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að borginni væri óheimilt að fela ON að annast viðhald og endurnýjun götulýsingar án útboðs á almennum markaði. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir félagsmenn SART þar sem áætlanir Reykjavíkurborgar gerðu ráð fyrir því að verja rúmum 6 milljörðum í þetta verkefni.
Fyrr á árinu höfðu önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tekið ákvörðun um að bjóða verkefni tengd götulýsingu út á almennum markaði.

Ný auglýsing með áherslu á rafbílahleðslu leit dagsins ljós á vefnum meistarinn.is og hefur hún vakið verðskuldaða athygli.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kom í ljós að áherslur Samtaka iðnaðarins um eitt innviðaráðuneyti hafði orðið að veruleika og má kalla það eitt og sér stórsigur í hagsmunabaráttu SI fyrir hönd mannvirkjagreinanna. Ný byggingarreglugerð leit einnig dagsins ljós undir lok ársins þar sem meðal nýjunga er flokkun mannvirkja. Ný byggingarreglugerð ásamt öflugri leitarvél er aðgengileg hér: https://www.byggingarreglugerd.is/
 
Núna í lok ársins þegar ég lít um öxl hefur starfið á árinu verið sérlega ánægjulegt og mörg spennandi verkefni hafa raungerst. Eftir sem áður eru mörg mikilvæg verkefni framundan sem snerta hagsmuni allra löggiltra rafverktaka. Það er því mikilvægt að við gætum að nýliðun innan SART því sameinuð höfum við  náð árangri sem aldrei hefði náðst ef við hefðum hvert í sínu lagi  verið að reyna að vinna málum okkar brautargengi.  

Ég þakka stjórn SART sem og öðrum félagsmönnum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða og hlakka til að takast á við ný verkefni með ykkur á nýju ári.

Kristján Daníel Sigurbergsson

Framkvæmdastjóri SART


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.