Samtök rafverktaka, SART, hafa vakið athygli félagsmanna sinna á hvaða kröfur eru gerðar til mæla í hleðslustöðvum fyrir rafbíla, m.a. að þeir innihaldi svokallaða MID vottaða mæla. Samtökin benda á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur markaðseftirlit með mælitækjum á grundvelli laga nr. 91/2006 og þar á meðal raforkumælum. Við mælingar á magni rafmagns sem selt er til notkunar á heimilum landsins er krafa um mælitæki sem uppfylla reglugerð 876/2016 um mælitæki og um eftirlit með þeim mælitækjum fer eftir reglugerð nr. 1061/2008.
Í bréfi SART til félagsmanna kemur fram að samkvæmt bréfi Orkustofnunar þann 16. maí sl. sé það afstaða stjórnvaldsins að þegar sala raforku í hleðslustöðvum byggi á seldu magni, skuli mælabúnaðurinn til að mæla raforkuna fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 1061/2008 og hafi gerðarviðurkenningu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur tekið undir afstöðu Orkustofnunar og tiltekur í erindi til SI að „þegar sala raforku í hleðslustöðvum til neytenda byggir á mældu magni, skal mælitækið sem notað er til þeirra mæla uppfylla lög og reglugerðir sem um mælitækin gilda hérlendis." Það er afstaða HMS að hleðslustöðvarnar þurfi í slíkum tilvikum að innihalda svokallaða MID vottaða mæla.
Samtök rafverktaka hafa óskað eftir fundi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Orkustofnun þar sem enn virðist ríkja nokkur óvissa um þær kröfur sem gerðar eru til mæla í hleðslustöðvum og telur SART það þarft að stofnanirnar taki af allan vafa og gefi út skýrar leiðbeiningar.
Light+building sýningin var haldin 2-6 október 2022 eftir að hafa verið frestað ítrekað.
Á vordögum 2019 var hafist handa við að skipuleggja hópferð SART á light+building sýninguna í Frankfurt sem halda átti 8-13. Mars 2020. En svo gripu örlögin í taumana og Covid-19 faraldurinn setti allar áætlanir í uppnám og syningunni var tvívegis frestað. Eftir sem áður var hópurinn sem hafði skráð sig í upphafi ákveðinn í að fara þegar sýningin yrði haldin og gekk það loksins eftir núna í byrjun október.
24 aðilar fóru til Frankfurt og kynntu sér það helsta sem íslensku birgjarnir okkar ásamt þeirra framleiðendum sem á sýningunni voru vildu vekja athygli á. Einnig var lífleg dagskrá í boði birgja í boði á kvöldin.
Formenn og framkvæmdastjórar samtaka rafverktaka og pípulagningameistara á Norðurlöndunum funduðu á Fosshóteli í Reykjavík í lok ágúst. Aðilar að samtökunum hér á landi eru Samtök rafverktaka, SART, og Félag pípulagningameistara, FP.
Á fundinum var meðal annars rætt um græna orku, stöðu útboða, aðgengi að hráefni, nýja tækni og breytingar á vinnumarkaði þar sem meðal annars var velt upp þeirri spurningu hvernig ástandið í Úkraínu hefði áhrif á vinnumarkaðinn. Einnig var rætt um framtíðarsýn byggingariðnaðarins út frá tæknilegu og efnahagslegu sjónarhorni.
Fyrir miðri mynd eru Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka rafverktaka, og Hjörleifur Stefánsson, formaður Samtaka rafverktaka ásamt Marianne W. Røiseland og Kimmo Hallamaa.
Árni Sigurjónsson, formaður SI ávarpaði fundinn.
Johnny Petré, Theresa Östman og Arnbjörn Óskarsson
Pétur H. Halldórsson og Sigurður Hannesson
Útspil iðnaðarráðherra mikil vonbrigði
Ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar hefur lagt fram tillögu um afnám á löggildingu 17 iðngreina. Hvorki var haft samráð við meistarafélög einstakra iðngreina né Samtök iðnaðarins áður en þessar tillögur voru lagðar fram líkt og gert er ráð fyrir í lögum um handiðn og reglugerð um löggiltar iðngreinar.
Ráðherra hefur einnig gefið til kynna að það eigi að halda áfram að afnema lögverndun iðngreina. Lítið hefur hins vegar borið á skilningi ráðherra á því hvaða tilgangi löggilding þjónar. Ráðherra lýsir löggildingu sem litlu meiru en opinberum stimpli og óþarfa „bjúrókrasíu“ sem dragi úr atvinnufrelsi og samkeppnishæfni Íslands. Því fer fjarri. Lögverndun iðngreina er ekki kerfislægur óþarfi heldur órjúfanlegur og mikilvægur hluti íslenska iðnmenntakerfisins. Þar horfir ráðherra til að mynda framhjá mati OECD frá 2013 um starfsmenntun á Íslandi. OECD benti á að það væri meðal styrkleika Íslands að hér sé sterkt iðnnámskerfi innan löggiltra starfsgreina sem byggi á árangursríku jafnvægi milli starfsþjálfunar á vinnustað og utan hans og skýrum valkostum um framhaldsmenntun til iðnmeistararéttinda eða eftir öðrum leiðum.
Löggilding starfsgreina er alþekkt og víða notuð til að ná fram markmiðum stjórnvalda, hér á landi meðal annars til að styðja við og styrkja íslenskt menntakerfi, auka neytendavernd, öryggi og heilsu. Ráðherra hefur staðhæft að Ísland sé heimsmethafi í löggildingu starfsgreina og setur í samhengi við þörf fyrir meira atvinnufrelsi og aukna samkeppnishæfni. Samkvæmt upplýsingum á vef Evrópusambandsins er Ísland í 22. sæti af 31 Evrópulandi varðandi fjölda starfsgreina og starfsheita sem njóta lögverndar. Meðaltal ríkjanna á listanum er rúmlega 207 greinar. Staðhæfingar um að hömlur af þessu tagi séu miklu meiri hér á landi en gengur og gerist í öðrum ríkjum eiga því ekki við rök að styðjast.
Undanfarin ár hefur kapp verið lagt á að auka veg og vanda iðngreina enda mikill skortur á iðnmenntuðu starfsfólki. Aðsókn í iðnnám hefur aukist mikið meðal annars vegna samstillts átaks stjórnvalda og iðnaðar. Löggilding iðngreina er mikilvægur þáttur á þessari vegferð og stuðlar að faglegu starfsumhverfi í iðnaði. Sú löggjöf sem liggur til grundvallar er bæði ætlað að skapa hvata fyrir einstaklinga til að sækja sér iðnmenntun og vissu fyrir neytendur um að þeir einstaklingar sem veita þeim þjónustu á sviði handiðnaðar hafi tilskilda færni. Meistarafélög innan Samtaka iðnaðarins hafa kallað eftir umbótum á löggjöfinni til að bæta starfsumhverfi þeirra þúsunda einstaklinga og fyrirtækja sem starfa í iðnaði og efla íslenskan iðnað.
Meistarafélög iðngreina innan Samtaka iðnaðarins vilja áfram vera í góðu samstarfi við stjórnvöld um eflingu iðnmenntunar og umbætur á sviði iðnaðar. Útspil iðnaðarráðherra eru því mikil vonbrigði.
Aðalsteinn Þór Arnarsson, formaður Félags rafverktaka á Norðurlandi
Arna Arnardóttir, formaður Félags íslenskra gullsmiða
Arnbjörn Óskarsson, formaður Félags rafverktaka á Suðurnesjum
Ásgrímur Þór Ásgrímsson, formaður Félags húsgagnabólstrara
Bjarni Ólafur Marinósson, formaður Meistarafélags byggingarmanna í Vestmannaeyjum
Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara
Einar Beinteinsson, formaður Félags dúklagninga- og veggfóðrarameistara
Eyjólfur Eyjólfsson, formaður Félags húsgagna- og innréttingaframleiðenda
Grétar I. Guðlaugsson, formaður Meistarafélags byggingarmanna á Suðurnesjum
Hannes Björnsson, formaður Múrarameistarafélags Reykjavíkur
Heiða Hrönn Hreiðarsdóttir, formaður Félags hársnyrtimeistara á Norðurlandi
Heiðar Smári Harðarson, formaður Félags skrúðgarðyrkjumeistara Samþykkt
Helgi Guðjónsson, formaður Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði
Hjörleifur Stefánsson, formaður Samtaka rafverktaka
Hrafnkell Guðjónsson, formaður Félags rafverktaka á Austurlandi og formaður starfsgreinahóps fyrirtækja í mannvirkjagerð á Austurlandi
Jón Sigurðsson, formaður Meistarafélags húsasmiða
Jón Þórðarson, formaður Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði
Katla Sigurðardóttir, formaður Klæðskera- og kjólameistarafélagsins
Kristján Aðalsteinsson, formaður Málarameistarafélagsins
Magnús Gíslason, formaður Félags rafverktaka á Suðurlandi
Magnús Guðjónsson, formaður Félags rafvertaka á Vesturlandi
Marinó Hákonarson, formaður starfsgreinahóps fyrirtækja í mannvirkjagerð á Vesturlandi
Pétur Halldórsson, formaður Félags löggiltra rafverktaka
Rebekka Ýr Einarsdóttir, formaður Félags íslenskra snyrtifræðinga
Sigurður Gunnarsson, formaður Félags rafeindatæknifyrirtækja
Sigurður M. Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara
Sigurður R. Sigþórsson, formaður Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi
Sævar Óskarsson, formaður Félags rafverktaka á Vestfjörðum
Sævar Jónsson, formaður Félags blikksmiðjueigenda
Valdimar Bjarnason, formaður Meistarafélags Suðurlands
Afhending Sveinsbréfa í rafiðngreinum fór fram við hátílega athöfn laugardaginn 28 maí
Alls fengu 61 rafvirkjar, 9 rafeindavirkjar, 3 rafvélavirkjar og 1 rafveituvirki afhent sveinsbréf við athöfnina sem haldin var á Grand Hótel.
Við athöfnina hélt Hjörleifur Stefánsson formaður SART ræðu sem fram kemur hér að neðan. Þar að auki afhenti Hjörleifur viðurkenningar fyrri besta heildaárangur úr skriflegum og verklegum prófum í rafiðngreinunum.
Ágætu nýsveinar og aðrir gestir.
Ég vil fyrir hönd Samtaka rafverktaka óska ykkur til hamingju með þennan áfanga sem er ekkert sjálfgefið að klára enda komast færri að í ykkar fagi en vilja. Þar er helst um að kenna dugleysi menntakerfisins þótt öðru sé haldið fram á tyllidögum.
Eflaust er að baki mikið stress og svefnlausar nætur til að komast á þennan stað en vegferðinni er ekki lokið hér. Þið verðið að passa upp á sífellda endurmenntun til að halda í við stöðuga tækniþróun í faginu. Þar stöndum við sem erum í rafiðnaðinum mjög sterk með Rafmennt sem er í eigu SART og RSÍ.
Samstarf SART og RSÍ sem gæta ykkar hagsmuna hefur að mínu mati verið einstaklega gott undanfarin ár er varðar réttinda- og menntamál í rafiðnaði þótt af og til sé örlítið tekist á í kjarmálunum. Það er von mín að svo verði áfram til framtíðar.
RSÍ heldur úti sveinalista fyrir þá sem hafa til þess hafa unnið en þangað eru þið komin nú. Það er einlægur vilji SART að sem allra fyrst verði allir sem starfa innan rafiðnaðarins á þessum lista.
Miklar breytingar hafa verið undanfarin ár er varðar vinnutíma iðnaðarmanna. Þar ber helst að nefna styttingu vinnuviku og upptöku virks vinnutíma. Ég hef stundum líkt vinnutíma við pizzasneiðar þar sem vinnudagurinn er ca 7 sneiðar sem viðskiptavinurinn er að kaupa. Ef vantar eina sneið í kassann kvartar viðskiptavinurinn. Það sama myndu þið gera ef þið pantið pizzu og það vantar eina sneið í kassann. Þannig að skilaboðin eru þessi virðum virkan vinnutíma það er hagsmunamál fyrir alla.
Öryggismál í faginu eru okkur öllum í rafiðnaði mikið hjartans mál og höfum við fjölda verkfæra til þess að tryggja öryggi. Þar er helst að nefna lása til útlæsinga og einstaklingsbundið áhættumat sem er app og er öllum aðgengilegt. Appið nefnist Rafmennt öryggi og var nýverið afhent öllum iðnaðarmönnum í landinu til notkunar þannig að þið og aðrir hafið verkfæri til þess að tryggja öryggi ykkar og annarra við störf.
Að lokum enn og aftur til hamingju með áfangann og njótið dagsins.
Ástþór Ernir Hrafnsson hlaut viðurkeningu fyrir samanlagða árangi í rafvirkjun.
Magni Rafn Jónsson hlaut viðurkenningu fyrir samanlagðan árangur í rafvélavirkjun
Egill Pétur Ómarsson hlaut viðurkenningu fyrir samanlagðan árangur í rafeindavirkjun
Þar að auki voru veittar viðurkenningar frá Félagi Íslenskra rafvirkja og Félagi rafeindavirkja.
- Verklegur árangur rafvirkja og rafvélavirkja
Rafvirkjun Ástþór Ernir Hrafnsson
Rafvélavirkjun Magni Rafn Jónsson - Skriflegur árangur rafvirkja og rafvélavirkja
Rafvirkjun Dagbjört Rut Kjaran Friðfinnsdóttir
Rafvélavirkjun Friðrik Matthíasson
- Skriflegur árangur rafeindavirkja
Egill Pétur Ómarsson - Verklegur árangur rafeindavirkja
Óskar ingi Gíslason
Nú er loksins hægt að halda samkomur og við hefjum fundarröð SART og aðildarfélaga á fræðslufundi með VEITUM
Skráningarhlekkur: https://www.si.is/starfsemi/vidburdir/2022/05/18/eventnr/1881