(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Áramótakveðja

Margt hefur áunnist á árinu sem senn er á enda


Á Útboðsþingi SI sem haldið var 27. janúar kynntu 11 opinberir aðilar áætlanir um verklegar framkvæmdir sem fara áttu í útboð á árinu. Áætlanirnar gerðu ráð fyrir því að 139 milljörðum yrði varið til framkvæmda á vegum þessara aðila og var það hækkun um 7,4 milljarða frá því sem kynnt var á Útboðsþingi 2020. Það var ánægjulegt að opinberir aðilar hafa þannig svarað kallinu um aukna innviðauppbyggingu sem mótvægi við áhrifum Covid 19 á mannvirkja greinarnar.

Aðalfundur SART var haldinn 28. maí þegar staðan í sóttvörnum myndaði glugga sem gerði félagsmönnum kleift að að koma saman í raunheimum.  Á aðalfundinum var Hjörleifur Stefánsson endurkjörinn formaður til tveggja ára.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var eftirfarandi bókun borin upp og samþykkt samhljóða:

Aðalfundur SART haldinn 28.05.2021 felur aðildarfélögum SART að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir leppun í rafiðngreinum innan og utan samtakanna.

Það er vissulega mikil meinsemd í faginu sem við störfum við  að undir verndarvæng löggiltra rafverktaka skuli starfa fyrirtæki í eigu réttindalausra rafiðnaðarmanna sem mörg hver standa ekki skil á lögboðnum skuldbindingum hvorki faglegum né fjárhagslegum. Að sama skapi má flestum vera það ljóst að töluverð ógn við heilsu og öryggi neytenda stafar af vinnu réttindalausra við raflagnir.
Stjórnir aðildarfélaga SART hafa í þeim tilfellum sem félagsmenn hafa tilkynnt um brot á iðnlöggjöfinni falið lögfræðingum Samtaka iðnaðarins að kæra brotin til réttmætra yfirvalda.  Í framhaldi af slíkum kærum hafa allnokkrir réttindalausir rafiðnaðarmenn ásamt þeim löggiltu rafverktökum sem uppvísir eru að leppun verið boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglu sem fer með rannsókn brota af þessu tagi.
Í tengslum við aðalfund SART var einnig haldinn ráðstefna sem bar nafnið Útboðsmarkaður rafverktaka.
Góð þátttaka var á ráðstefnunni sem var haldin á Grand Hótel Reykjavík en jafnframt streymt á netinu. Hér má nálgast upptöku frá ráðstefnunni

Í sumar bauðst félagsmönnum SART að taka þátt í átaksverkefni stjórnvalda sem að uppfylltum ákveðnum skilyrðum styrktu fyrirtæki fjárhagslega til að ráða nema í rafiðngreinum til sumarstarfa. RAFMENNT hélt utan um þetta verkefni sem vakti verðskuldaða athygli og veitti fjölda rafiðnaðarnema vinnu í faginu.

Mikil ásókn er í nám í rafiðngreinum og því miður hafa verknámsskólarnir þurft að vísa frá miklum fjölda nema sem sóttu um skólavist á árinu. Í upphafi ársins var sett ný reglugerð um vinnustaðanám og Rafræn ferilbók leit dagsins ljós. RAFMENNT ásamt IÐUNNI hafa verið í fararbroddi fyrir hönd atvinnulífsins í vinnu tengdri þessum breytingum. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá hversu samstilltar þessa endurmenntunarstofnanir iðnaðarins hafa verið í hagsmunagæslu fyrir hönd atvinnurekenda við innleiðingu breytinga tengdum nýrri reglugerð og rafrænum ferilbókum mannvirkjagreinanna.

Stefnumótunarfundur SART var haldinn í byrjun október þar sem á þriðja tug löggiltra rafverktaka af öllu landinu tóku þátt og verður framtíðarsýn SART gefin út í byrjun ársins 2022.

Útleiga á orlofshúsi SART hefur gengið vel á árinu og hefur reglulegu viðhaldi og endurnýjun búnaðar verið vel sinnt. Ástæða er til að vekja athygli félagsmanna á orlofshúsinu og því skemmtilega umhverfi sem húsið stendur í. Nánari upplýsingar eru á vef SART

Undir lok ársins gaf Reykjavíkurborg það út að borgin ætlaði að bjóða út viðhald og endurnýjun götulýsingar í Reykjavík en í maí sl. höfðu Samtök iðnaðarins betur í máli gegn Reykjavíkurborg þegar kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að borginni væri óheimilt að fela ON að annast viðhald og endurnýjun götulýsingar án útboðs á almennum markaði. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir félagsmenn SART þar sem áætlanir Reykjavíkurborgar gerðu ráð fyrir því að verja rúmum 6 milljörðum í þetta verkefni.
Fyrr á árinu höfðu önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tekið ákvörðun um að bjóða verkefni tengd götulýsingu út á almennum markaði.

Ný auglýsing með áherslu á rafbílahleðslu leit dagsins ljós á vefnum meistarinn.is og hefur hún vakið verðskuldaða athygli.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kom í ljós að áherslur Samtaka iðnaðarins um eitt innviðaráðuneyti hafði orðið að veruleika og má kalla það eitt og sér stórsigur í hagsmunabaráttu SI fyrir hönd mannvirkjagreinanna. Ný byggingarreglugerð leit einnig dagsins ljós undir lok ársins þar sem meðal nýjunga er flokkun mannvirkja. Ný byggingarreglugerð ásamt öflugri leitarvél er aðgengileg hér: https://www.byggingarreglugerd.is/
 
Núna í lok ársins þegar ég lít um öxl hefur starfið á árinu verið sérlega ánægjulegt og mörg spennandi verkefni hafa raungerst. Eftir sem áður eru mörg mikilvæg verkefni framundan sem snerta hagsmuni allra löggiltra rafverktaka. Það er því mikilvægt að við gætum að nýliðun innan SART því sameinuð höfum við  náð árangri sem aldrei hefði náðst ef við hefðum hvert í sínu lagi  verið að reyna að vinna málum okkar brautargengi.  

Ég þakka stjórn SART sem og öðrum félagsmönnum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða og hlakka til að takast á við ný verkefni með ykkur á nýju ári.

Kristján Daníel Sigurbergsson

Framkvæmdastjóri SART

Hátíðarkveðja

Rafrænn kynningarfundur um flokkun mannvirkja

Mannvirkjasvið SI boðar til rafræns kynningarfundar fyrir félagsmenn um breytingar á byggingarreglugerð miðvikudaginn 5. janúar kl. 9.00-10.00.

  • Herdís Hallmarsdóttir, teymisstjóri og staðgengill framkvæmdastjóra á sviði Öryggis mannvirkja hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, kynnir breytingarnar. Herdís leiddi vinnu starfshóps sem útfærði umræddar breytingar.
  • Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, stýrir fundi og umræðum í kjölfar kynningar.

Nú hafa tekið gildi nýjar breytingar á byggingarreglugerð. Um er að ræða reglugerð nr. 1321/2021 sem birt hefur verið í Stjórnartíðindum og á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Helstu breytingar eru að samkvæmt nýjum kafla 1.3 flokkast mannvirki og mannvirkjagerð nú í þrjá umfangsflokka eftir eðli, umfangi og samfélagslegu mikilvægi; umfangsflokk I (geymslur, bílskúrar, sumarhús o.fl.), umfangsflokk II (flest mannvirki, s.s. einbýlishús og fjölbýlishús) og umfangsflokk III (stór fjölbýlishús, sjúkrahús, skólar, virkjanir o.þ.h.).

Nánari umfjöllun um breytingarnar má finna hér.

Hér er hægt að skrá sig á fundinn.

 

Stór áfangi í baráttu fyrir útboði á viðhaldi og endurnýjun á götulýsingu í Reykjavík

Stór áfangi hefur náðst í baráttunni fyrir því að viðhald og endurnýjun götulýsingar á öllu höfuðborgarsvæðinu verði boðið út á almennum markaði.
Undanfari þessa máls er að í maí 2020 kærðu Samtök iðnaðarins þjónustusamninga og aðra samninga milli Reykjavíkurborgar og Orku náttúrunnar og kröfðust þess að að borginni yrði gert skylt að bjóða út viðhald og endurnýjun götulýsingar.
Kærunefnd útboðsmála felldi úrskurð þann 19. maí sl. þar sem Reykjavíkurborg var dæmd til að greiða Stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 2.000.000.- í ríkissjóð og málskostnað kr. 1.000.0000.- til Samtaka iðnaðarins. Auk þess sem að í úrskurðar orðum var lagt fyrir borgina að bjóða út þjónustu við útskipti og uppsetningu LED lampa í Reykjavík.
Í framhaldi af úrskurðinum skoruðu Samtök iðnaðarins í júní sl. á borgarstjóra að hlíta þessum úrskurði og fara með þessi verkefni í útboð.
Nú loksins hillir undir að þetta verði að veruleika þar sem Fréttablaðið greinir frá  13. nóvember 2021 að Reykjavíkurborg stefni á útboð á LED væðingu og raforkukaupum borgarinnar, en þar er haft eftir formanni borgarráðs og oddvita Viðreisnar, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttir, að um sé að ræða innkaup sem nemi hundruðum milljóna á ári og gætu sparað verulega rekstrarkostnað. Málið hafi verið rætt á fundi borgarráðs í vikunni þar sem farið var yfir úrskurð áfrýjunarnefndar útboðsmála frá því maí.
Þessum sinnaskiptum hjá Reykjavíkurborg ber að fagna en áður höfðu Hafnarfjörður, Garðabær og Kópavogur ákveðið að setja verkefni er snúa að áðurnefndum verkþáttum í útboð

Fréttablaðið 13. nóvember 2021

Stefnumótun SART

Samtök rafverktaka, SART, efndu til stefnumótunar með félagsmönnum sínum á Hótel Keflavík dagana 8. og 9. október síðastliðna. Alls tóku 30 félagsmenn auk fulltrúa frá SI þátt í stefnumótunarvinnunni sem stýrt var af Arndísi Ósk Jónsdóttur frá Change Incorporated ehf.

Miklar og fjörugar umræður sköpuðust um verkefnin sem unnin voru og var einhugur meðal félagsmanna  um mikilvægi þess að samtökin móti skarpa sýn á verkefni næstu ára. Þátttakendur í stefnumótuninni voru allt frá einyrkjum upp í fulltrúa fjölmennustu fyrirtækjanna innan SART.

Í lok fyrri stefnumótunardags var farið í skoðunarferð um Rokksafn Íslands í Hljómahöllinni og seinni stefnumótunardagurinn var tekinn snemma og lauk um hádegisbilið þegar fundarmenn héldu heim á leið.

Nokkuð er um liðið frá því að stefnumótun var síðast á dagskrá hjá Samtökum rafverktaka og bindur stjórn samtakanna miklar vonir við að niðurstaða þessarar vinnu verði góður vegvísir í starfsemi félagsins ti næstu ára.

 

Hjörleifur Stefánsson, formaður SART  og Arndís Jónsdóttir ráðgjafi hjá Change Incorporated ehf

 

 

 Jóhann Unnar Sigurðsson löggiltur rafverktaki hjá Elmax

 

Jóhann Emil Kolbeins, löggiltur rafverktaki hjá Securitas 

 

Kristbjörn Óli Guðmundsson, löggiltur rafverktaki hjá Eðalraf

 

 Ásmundur Einarsson rafeindavirkjameistari, Hjörleifur Stefánsson löggiltur rafverktaki hjá Nesraf og

Pétur Halldórsson, löggiltur rafverktaki hjá Raftækjasölunni

 

 Hjörtur Sigurðsson framkvæmdastjóri VSB, Hjörleifur Stefánsson formaður SART og

Kristján Daníel Sigurbergsson framkvæmdastjóri SART

 

Aníta Guðbergsdóttir sá um leiðsögn um  Rokksafni Íslands 

ÍST 30:2012 og Lestur útboðsgagna

Félagsmenn SART hafa í gegnum sérstakan samning við Staðlaráð Íslands gjaldfrjálsan aðgang að eftirfarandi fagtengdum stöðlum:

  • ÍST HB200 (Raflagnir bygginga)
  • ÍST 150 (Raf- og fjarskiptalagnir fyrir íbúðarhúsnæði - Gerð, staðsetning  og fjöldi tengistaða)
  • ÍST 151 (Fjarskiptalagnir í íbúðarhúsnæði - Loftræstikerfi - Netkerfi - Símkerfi - Hússtjórnarkerfi)
  • ÍST 30 (Almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir)
  • ÍST HB211 Spennujöfnun raflagna

 Nú á haustdögum hefur RAFMENNT settá dagskrá tvö námskeið sem vert er að benda félagsmönnum á.

28. sept hefst námskeiðið Lestur útboðsgagna þar sem horft verður sérstaklega til ÍST 30

1. okt. verður svo námskeið þar sem farið verður yfir ÍST 200:2021 og meðal annars lögð áhersla Varnaraðferðir, spennujöfnun ofl. 

 


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.