Áhugi á uppsetningu sólarvirkja hefur aukist verulega á undanförnum árum, bæði hér á landi og víðar. Með framförum í tækni er nú raunhæfur möguleiki að nýta sólarorku til raforkuframleiðslu jafnvel á norðlægum slóðum eins og á Íslandi.
Sólarvirki í stuttu máli
Sólarorkukerfi samanstanda af sólarsellum sem umbreyta sólarljósi í rafmagn. Raforkan verður til sem jafnstraumur sem síðan er breytt í riðstraum með svokölluðum áriðli (inverter), þannig að hægt sé að nota hana í hefðbundin raftæki á heimilum.
Nauðsynlegt að fara að settum reglum
Þrátt fyrir að sólarorkukerfi séu ekki enn orðin algeng á Íslandi, hefur uppsetning þeirra aukist gríðarlega í Evrópu. Í kjölfarið hafa komið upp tilvik um bruna og truflanir á rafbúnaði og fjarskiptum. Slík atvik undirstrika mikilvægi þess að velja vandaðan og samhæfan búnað og fá sérhæfða aðila til verksins.
Sérstaklega skiptir máli að:
- Allur búnaður uppfylli gildandi kröfur og staðla.
- Íhlutir séu keyptir frá aðilum með reynslu til að tryggja samhæfni og draga úr áhættu á truflunum.
- Uppsetning og tenging fari fram á ábyrgð löggilts rafverktaka sem tilkynnir verkið til HMS.
Byggingarleyfi og burðarþol
Við uppsetningu á þaki þarf að huga að burðarþoli og vindálagi, auk þess sem uppsetning getur verið byggingarleyfisskyld eða tilkynningarskyld til byggingarfulltrúa sveitarfélags.
HMS gefur út verklýsingar
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur gefið út verklýsingu VL 3.040 sem fjallar um raflagnir sólarvirkja. Þar er fjallað um reglugerð um raforkuvirki (rur) og viðeigandi staðla, þar á meðal ÍST HD 60364, sem lúta að öruggri og rétt útfærðri uppsetningu rafbúnaðar.
Samantekt
Sólarorka býður upp á spennandi tækifæri fyrir sjálfbæra orkuöflun, en nauðsynlegt er að vanda til verka og fylgja settum reglum og stöðlum. Samtök rafverktaka leggja áherslu á að skapa öruggt og traust rekstrarumhverfi fyrir nýja tækni og hvetja til þess að fyrirtæki sem starfa á þessu sviði tileinki sér faglega vinnubrögð og nýti sér leiðbeiningar opinberra aðila. Þetta tryggir bæði öryggi og framgang grænna orkulausna á Íslandi.