Árangursríkt starfsár og ný stefna í mótun hjá Félagi rafeindatæknifyrirtækja

 

Aðalfundur FRT fór fram nýverið þar sem farið var yfir viðburðaríkt starfsár. Ljóst er að FRT stendur á tímam

Á starfsárinu 2025 hefur Félag rafeindatæknifyrirtækja (FRT) lagt ríka áherslu á að efla fagmennsku, tryggja réttindi greinarinnar og styrkja stöðu rafeindavirkja sem löggiltrar iðngreinar í tæknivæddu samfélagi. Unnið hefur verið ötullega að hagsmunamálum félagsmanna og stefnumótun til framtíðar.

Nýir félagsmenn og virk þátttaka

Félagið stækkaði á árinu með nýjum félagsmönnum og á starfsárinu hefur stjórn haldið fjóra fundi auk vinnufunda um stefnumótun. Einnig hefur formaður FRT tekið virkan þátt í fundum á vegum Starfsgreinaráðs, SART, Rafmenntar og Samtaka iðnaðarins (SI), þar sem fjallað hefur verið um margvísleg mál er varða menntamál, lagasetningu og réttindi iðngreina.

Áhersla á menntamál og faglega umræðu

Menntamál voru í brennidepli á árinu. Starfsgreinaráð rafeindavirkja fjallaði um nýja námskrá og notkun ferilbóka, en deilur sköpuðust um innleiðingu námskrárinnar og drógu flestir skólar sig út úr verkefninu. FRT hefur einnig verið virkt í að vekja athygli á mikilvægi lögverndaðrar fagmenntunar og kallað eftir því að opinberir aðilar noti rétt starfsheiti við útboð og auglýsingar.

Samstarf og sýnileiki

Félagið tók þátt í auglýsingaherferð SART og hefur lagt áherslu á að kynna starfssvið rafeindavirkja. Einnig hefur verið unnið markvisst að því að tryggja viðurkenningu á eftirlitsskyldu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með fjarskiptalögnum samkvæmt ÍST 151 staðlinum.

Stefnumótun og framtíðarsýn

Í nóvember stóð FRT fyrir málþingi þar sem unnin var greinargerð og S.V.Ó.T. greining fyrir félagið. Þessi vinna er mikilvægur grunnur fyrir áframhaldandi stefnumótun og undirstrikar ásetning félagsins um að tryggja menntun, fagmennsku og réttindi iðngreinarinnar. Niðurstöður málþingsins verða grunnur að innleiðingu nýrrar stefnu á árinu 2026.

Formannsskipti og þakkir

Á aðalfundinum tilkynnti Hjörtur Árnason að hann léti af formennsku eftir yfir tuttugu ára starf í stjórn FRT, þar af fjölda ára sem formaður. Hann þakkaði samstarfsfólki sínu og sérstaklega Kristjáni Daníel Sigurbergssyni fyrir traust og gott samstarf í gegnum árin.

Talsverð endurnýjun var í stjórn félagsins en hana skipa:

Formaður: Guðni Einarsson

Meðstjórnendur: Halldór Gunnarsson og Sigurður Gunnarsson

Varamenn: Davíð Valdimar Arnalds og Ólafur Friðrik C. Rowell

 Pétur Hákon Halldórsson formaður Sart þakkar Hirti Árnasyni fráfarandi formanni FRT fyrir gott starf í þágu félagsmanna.


Félag rafeindatæknifyrirtækja er aðildarfélag SART og gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja gæði og öryggi í fjarskipta- og rafeindatæknigreinum. Með markvissri stefnumótun og sterkri faglegri sýn vinnur félagið að því að efla greinina og bæta starfsumhverfi rafeindavirkja á Íslandi.