SART kallar eftir skýrum leiðbeiningum

Samtök rafverktaka, SART, hafa vakið athygli félagsmanna sinna á hvaða kröfur eru gerðar til mæla í hleðslustöðvum fyrir rafbíla, m.a. að þeir innihaldi svokallaða MID vottaða mæla. Samtökin benda á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur markaðseftirlit með mælitækjum á grundvelli laga nr. 91/2006 og þar á meðal raforkumælum. Við mælingar á magni rafmagns sem selt er til notkunar á heimilum landsins er krafa um mælitæki sem uppfylla reglugerð 876/2016 um mælitæki og um eftirlit með þeim mælitækjum fer eftir reglugerð nr. 1061/2008.

Í bréfi SART til félagsmanna kemur fram að samkvæmt bréfi Orkustofnunar þann 16. maí sl. sé það afstaða stjórnvaldsins að þegar sala raforku í hleðslustöðvum byggi á seldu magni, skuli mælabúnaðurinn til að mæla raforkuna fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 1061/2008 og hafi gerðarviðurkenningu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur tekið undir afstöðu Orkustofnunar og tiltekur í erindi til SI að „þegar sala raforku í hleðslustöðvum til neytenda byggir á mældu magni, skal mælitækið sem notað er til þeirra mæla uppfylla lög og reglugerðir sem um mælitækin gilda hérlendis." Það er afstaða HMS að hleðslustöðvarnar þurfi í slíkum tilvikum að innihalda svokallaða MID vottaða mæla.

Samtök rafverktaka hafa óskað eftir fundi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Orkustofnun þar sem enn virðist ríkja nokkur óvissa um þær kröfur sem gerðar eru til mæla í hleðslustöðvum og telur SART það þarft að stofnanirnar taki af allan vafa og gefi út skýrar leiðbeiningar.