SI segir eftirlit opinberra aðila með öllu óásættanlegt

Í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar regluverks mál. 332 kemur fram að eftirfylgni opinberra aðila með iðnaðarlögunum hefur verið með öllu óásættanleg undanfarin ár. Ekkert opinbert eftirlit hefur verið til staðar í þeim tilgangi að hlúa að löggiltum iðngreinum hér á landi og neytendur hlotið skaða af. Eftirlitið hefur þess í stað færst yfir á markaðinn sem hefur eins og stendur fá sem engin úrræði til að stöðva ólögmæta starfsemi ófaglærðra í löggiltum iðngreinum. Tilraun var gerð til að fá Neytendastofu til að taka fyrir málefni ófaglærðra en Neytendastofa féllst ekki á sjónarmið SI og taldi ekki ástæð til að aðhafast nokkuð. Ástandið er því orðið óásættanlegt.

Sjá umsögn SI hér

SART tekur að öllu leiti undir umsögn SI og hvetur til að þessum málum verði komið í viðunandi horf. Hér er um gríðarlegt hagsmunamál fyrir samfélagið í heild sinni, jafnt iðnaðarmenn sem neytendur. Það er með öllu óásættanlegt að ófaglærðir geti siglt undir fölsku flaggi og boðið fram þjónustu í löggiltum iðngreinum án nokkurra viðurlaga. Alltof algengt er að tjón hafi hlotist af verkum réttindalausra sem tekið hafa að sér störf í löggiltum iðngreinum og ekki skilað fullnægjandi verki. Nánast undantekningarlaust hafa þessir sömu aðilar ekki neinar tryggingar né fjárhagslegt bolmagn til að mæta tjóni verkkaupa. Svo má velta því fyrir sér hvort lögbundnir skattar og gjöld skili sér til samfélagsins af verkum réttindalausra.