(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Samspil hitastigs og sverleika tauga í rafmagnstöflum – Nýjar leiðbeiningar HMS og SART

Samtök rafverktaka (SART) vekja athygli löggiltra rafverktaka á vaxandi vandamáli tengdu háu hitastigi í rafmagnstöflum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur á undanförnum misserum fengið ábendingar um illa farnar og jafnvel brunnar taugar í rafmagnstöflum, oft tengdar auknu og stöðugu álagi. Þetta álag getur valdið hækkandi hitastigi í töflum og haft alvarlegar afleiðingar.


Hár hiti í rafmagnstöflum getur:
     • Minnkað straumflutningsgetu töflutauga.
     • Stytt líftíma búnaðar í töflum, svo sem var- og rafeindabúnaðar.
     • Í verstu tilfellum valdið bruna og hættu á eignatjóni eða slysum.

Ábyrgð rafverktaka og töflusmiða

Eitt mikilvægasta verkefni rafverktaka og töflusmiða er að staðfesta og sannreyna hitastigshækkun innan rafmagnstöflu við venjulega notkun. Rétt val á töflutaugum, með tilliti til straumflutningsgetu, og trygging þess að búnaður starfi innan leyfilegs hitastigs eru lykilatriði í öryggi rafkerfa.
Í þessu samhengi er mikilvægt að minna á ákvæði í grein 6.12.4 í byggingarreglugerð, sem segir að:
„Leitast skal við að hafa stofnkassa, mælatöflur og/eða aðaltöflur rafmagns í sérstöku töfluherbergi. Þar sem því verður ekki við komið skal tryggja að hitastig rýmis og raki í því sé í samræmi við hönnunarforsendur rafkerfis. Hitastig í töflurými ætti ekki að vera hærra en 25°C. Jafnframt skal tryggja að staðsetning yfirþrýstingsloka og annars búnaðar vatnsinntaka sé ekki með þeim hætti að það geti haft áhrif á starfsemi rafkerfa.“
Þetta ákvæði undirstrikar nauðsyn þess að tryggja að umhverfisaðstæður í töflurýmum séu í samræmi við kröfur um öruggan og áreiðanlegan rekstur rafkerfa.

Aðkoma Fagnefndar SART

Fagnefnd SART hefur unnið náið með HMS að gerð nýrra leiðbeininga sem fjalla ítarlega um hitastig og taugar í rafmagnstöflum. Í þessum leiðbeiningum er fjallað meðal annars um:
     • Kröfur sem gilda um hitastig í rafmagnstöflum.
     • Áhrif hita á straumflutningsgetu tauga og líftíma búnaðar.
     • Ákvörðun um þversnið töflutauga í samræmi við álag.

Leiðbeiningarnar eru lykilverkfæri fyrir hönnuði, rafverktaka og töflusmiði til að tryggja að hitastig í rafmagnstöflum sé innan öruggra marka og að rekstur kerfa sé traustur.

Leiðbeiningarnar má nálgast hér: HLEKKUR Á PDF

SART hvetur alla löggilta rafverktaka til að kynna sér þessar leiðbeiningar og innleiða þær í starfshætti sína til að auka öryggi og draga úr hættu á bilunum eða slysum.

Aðalfundur Sart haldinn 7. mars – Kosning nýs formanns á dagskrá

Aðalfundur Samtaka rafverktaka, Sart, verður haldinn föstudaginn 7. mars kl. 08:30 á Grand Hótel Reykjavík. Fundurinn markar tímamót þar sem kjör nýs formanns fer fram, en núverandi formaður lýkur hámarkstíma sínum í embætti.

Kosning nýs formanns
Samkvæmt samþykktum Sart skal formaður kosinn með leynilegri kosningu og nægir einfaldur meirihluti til að tryggja kjör. Frambjóðendur eru beðnir um að tilkynna framboð sitt á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eigi síðar en 20. febrúar.

Dagskrá fundarins
Á aðalfundinum munu formaður og framkvæmdastjóri fara yfir störf stjórnar og skrifstofu á liðnu ári, reikningar samtakanna verða kynntir, og formenn aðildarfélaga munu gera grein fyrir starfi síns félags. Undir lok hefðbundinna aðalfundarstarfa verður kosið um nýjan formann, auk tveggja skoðunarmanna og varamanna þeirra.

Hádegisverður í boði birgja og heimsókn til Securitas
Eftir aðalfundinn verður hádegisverður í boði birgja. Síðar um daginn býður Securitas fundargestum í heimsókn í aðalstöðvar sínar að Tunguhálsi 11, þar sem boðið verður upp á léttar veitingar, drykki og skemmtun ásamt kynningu á helstu vörum fyrirtækisins. Sérfræðingar Securitas verða á staðnum og svara fyrirspurnum.

Samtök iðnaðarins hvetja félagsmenn Sart til að mæta og taka virkan þátt í fundinum, enda er aðalfundurinn mikilvægur vettvangur fyrir rafverktaka til að hafa áhrif á stefnu og framtíð samtakanna.

Aðalfundir aðildarfélaga

Í desember héldu þrjú aðildarfélög sart aðalfundi sína
• Félaga rafverktaka á Vestfjörðum, FRVF  8. desember
• Félag rafeindatæknifyrirtækja, FRT 13. desember
• Félag rafverktaka á Suðurlandi, FRS 19. desember


Í stjórn FRVF eru:
Sævar Ósarsson formaður, Einar Ágúst Yngvason og Albert Guðmundsson meðstjórnendur og Karl Þór Þórisson, varamaður.

 


Í stjórn FRT eru:
Hjörtur Árnason formaður, Guðni Einarsson og Sigurður Gunnarsson meðstjórnendur og Vilmundur Sigurðsson og Halldór Gunnarsson eru varamenn.

 


Í stjórn FRS eru:
Magnús Gíslason formaður, Guðjón Guðmundsson og Ragnar Ólafsson meðstjórnendur og Hermann G. Jónsson varamaður.

 

Rafmennt afhendir útskriftarskírteina

 

Útskriftarnemum í Meistaraskóla, kvikmyndartækni, og sveinum í raf- og rafeindavirkjum voru afhent útskriftarskírteini við hátíðlega athöfn á Hótel Nordica  þann 20. desember.
Að þessu sinni voru útskrifaðir 21 meistari, 24 nýsveinar í rafvirkjun, 7 nýsveinar í rafeindavirkjun og 10 kvikmyndatæknifræðingar
Dagskráin var glæsileg að vanda með ræðuhöldum og afhendingu viðurkenninga fyrir góðan árangur.
Dúx í Kvikmyndatækni var Kristján Loftur Jónsson og hlaut hann verðlaun frá Stúdío Sýrlandi.

Breki Gunnarsson fékk verðlaun frá SART fyrir heildar árangur á sveinsprófi í rafvirkjun.

Skafti Þór Einarson hlaut viðurkenningu frá FÍR fyrir góðan árangur árangur í skriflega hluta sveinsprófs og Breki Gunnarsson fyrir verklega hlutann.

Fyrir heildar árangur á sveinsprófi í rafeindavirkjun hlaut Albert Snær Guðmundsson verðlaun frá SART
Félag rafeindavirkja veitti einnig Albert Snæ Guðmundssyni viðurkenningu fyrir skriflegan árangur og Jakobi Bjarka Hjartarsyni fyrir verklegan árangur. 


Nýútskrifaðir meistarar fengu allir gjafabréf með árs aðild að Samtökum rafverktaka.

Að þessu sinni útskrifuðust 21 meistari frá Rafmennt

Nýjar forvarnarleiðbeiningar til húseigenda um rafmagnsöryggi gefnar út

 

Samtök rafverktaka (sart) hafa í samstarfi við Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) gefið út forvarnarleiðbeiningar sem miða að því að auka rafmagnsöryggi á heimilum og vinnustöðum. Leiðbeiningarnar innihalda mikilvægar ráðleggingar til húseigenda um hvernig draga má úr hættu á slysum og eldsvoðum af völdum rafmagns.

Samkvæmt reynslu frá Evrópu eru tæplega helmingur eldsvoða raktir til rafmagns. Því er lykilatriði að húseigendur geri sitt til að bæta brunavarnir og tryggja öryggi heimilisfólks og starfsfólks. Í leiðbeiningunum er meðal annars fjallað um reglulegt eftirlit með rafbúnaði, mikilvægi faglegra úttektar löggiltra rafverktaka og hvernig forðast má algengar hættur tengdar rafmagni.

Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vefsíðum samtakanna, og vonast aðstandendur útgáfunnar til að þær nýtist sem flestum til að draga úr hættu á eldsvoðum og slysum.

Samtök rafverktaka, hvetja til aukinnar vitundar um rafmagnsöryggi
Samtök rafverktaka leggja áherslu á mikilvægi rafmagnsöryggis sem hluta af bættu rekstrarumhverfi og aukinni ábyrgð húseigenda og fyrirtækja. Með því að fylgja slíkum leiðbeiningum er hægt að draga verulega úr hættu á slysum, minnka tjón og efla öryggi almennings og starfsfólks. 

Leiðbeiningarnar má nálgast hér: Hlekkur

Ný stjórn FLR kjörin á aðalfundi 2024


Aðalfundur Félags löggiltra rafverktaka (FLR) fór fram miðvikudaginn 6. nóvember 2024 í Húsi atvinnulífsins. Á fundinum voru helstu málefni félagsins til umfjöllunar, meðal annars skýrsla stjórnar, ársreikningar og kosningar til stjórnar og varastjórnar.
Pétur H. Halldórsson endurkjörinn formaður
Pétur H. Halldórsson, sem lokið hafði sínu kjörtímabili sem formaður, gaf kost á sér til áframhaldandi starfa og var einróma endurkjörinn til tveggja ára. Einnig voru kosnir tveir meðstjórnendur; Jóhann Unnar Sigurðsson hlaut kjör í fyrstu umferð, en Arnar Heiðarsson var valinn í seinni umferð kosninga. Í varastjórn hlutu kjör þeir Kristján Sveinbjörnsson og Hafþór Ólason.
Aðrar samþykktir og verkefni félagsins
Ársreikningar félagsins voru kynntir og samþykktir án athugasemda, en engin tillaga lá fyrir um breytingar á félagsgjöldum eða samþykktum félagsins. Núverandi skoðunarmenn reikninga, Helgi Kolsöe og Lárus Andri Jónsson, voru endurkjörnir einróma.
Undir liðnum önnur mál vakti Hjörleifur Stefánsson, formaður SART, athygli fundarmanna á Mannvirkjagátt HMS og hvatti félagsmenn til að nýta sér upplýsingarnar sem þar má finna. Áður en fundurinn hófst hélt Borgar Erlendsson kynningu á nýju markaðsforriti, Kozmoz, sem ætlað er að auðvelda viðskiptatengsl og miðlun þjónustu á sviði löggiltra iðngreina í mannvirkjagerð.
Ný stjórn tekur til starfa
Stjórn FLR fyrir starfsárið 2024-2025 skipa nú Pétur H. Halldórsson, formaður, ásamt Jóhanni Unnari Sigurðssyni, Arnari Heiðarssyni, Bergrós B. Bjarnadóttur og Róberti Einari Jenssyni sem meðstjórnendum. Hafþór Ólason og Kristján Sveinbjörnsson gegna hlutverki varamanna.


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.