Beint á leiđarkerfi vefsins
Sart.is

Fréttir

28.12.2009

Af rafbylgjum og prjónakörlum......

Frásögn frá löggiltum rafverktaka, félagsmanni í SART.

Fyrir all nokkru síðan fékk ég í heimsókn Garðar Bergendal nokkurn, en hann gefur sig út fyrir að finna neikvæðar rafbylgjur í húsum fólks með prjónum og eyða þeim með ýmsum ráðum. Hann kom inn mjög ábúðarfullur, settist við eldhúsborðið, þáði kaffi og fór fljótlega að segja okkur hjónum af sínum fræðum og afrekum. Síðan var hafist handa, því hann sagði að hér væri ekki allt með feldu, það finndi hann strax, en sagðist geta lagað það fljótt og vel.

Töfra-hólkurinn
Upp úr tösku sinni tók hann ca. 30 cm langan hólk, sem mér sýndist vera 70 mm grátt plaströr með lok á báðum endum og samsett í miðju með múffu. Hann bað um handklæði eða viskastykki, sem hann setti utan um hólkinn og spurði síðan um áttir. Staðsetti hann svo hólkinn í suðaustur horni neðri hæðar, en þetta tæki átti að sjá um að halda öllu í jafnvægi eftir að hann væri búinn að koma öllu í lag, svo sem snúa klóm í tenglum og fleira.  

VDE merkið
Nú vildi hann sjá brauðristina og sýndi hann mé merki á klónni, sem er þríhyrningur á smá sökkli og inní honum stóð VDE. Þetta  merki sagði hann mér að væri ör sem vísaði á þann pinna klóarinnar sem ætti að fara í þann hluta tengilsins þar sem póllinn er tengdur. Síðan vildi hann fá hleðslutæki fyrir síma og þar sem erfitt væri að vita hvernig það ætti að snúa þegar því væri stungið í samband, þá væri hann með ráð við því. Hann var með járnsagar-blað og sagaði í plastið mitt á milli pinnana ca. eins cm. djúpa rauf (sagarfar). Hvað er þetta spurði ég?  "Ég saga þarna í sundur vír þannig að það er alveg sama hvernig klóin snýr í tenglinum" segir hann og gerði þetta líka við klóna á vekjaraklukkunni minni.

Ekki sama hvernig perurnar snúa
Nú sótti ég annað hleðslutæki og sagaði djúpt vafflaga skarð á milli pinnana og bað hann að sýna mér þennan vír sem þarna ætti að vera. Það var fátt um svör, en hann sagði hann vera þarna þó hann sæist ekki. Hann merkti nokkra tengla, þeim megin sem póllinn er tengdur og síðan klóna eins og hún átti að snúa, svo sem sjónvarpið og fleira."Flúrperur í lömpum eiga alltaf að snúa þannig að merkingin á perunni á að vera þeim megin í lampanum sem startarinn er," þetta mældi hann með prjónunum eftir að hann sá hvernig perurnar í undirskápalömpunum snéru og lét hann mig snúa þeim.

Aftengja "jarðtenginguna" ?
Ekki sýndu prjónarnir enn að allt væri í lagi, nú vildi hann sjá "jarðtenginguna" á húsinu. Við fórum í kjallarann og ég sýndi honum spennujöfnunina. Þá sagði hann að ef við aftengdum jarðtenginguna milli heita og kalda vatnsins myndi mikið lagast en hann mætti ekki gera það, hann hefði ekki leyfi til þess, en þar sem ég væri rafvirki þá ættum við að prufa það og mæla svo. Ég aftengdi meðan hann sá til, en tengdi strax aftur um leið og hann snéri sér við til að ganga upp stigann. Þegar við komum upp mundaði hann prjónana og þeir hreyfðust nánast ekkert og hann segir þá að allt sé að komast í gott lag.

Óæskilegir straumar horfnir ?
Ţá segi ég honum að ég hafi tengt aftur jarðvírinn niðri, hann sé tengdur núna og ég skilji ekki hvað hafi getað breyst (svolítið farið að þykkna í mér). Ég spurði hverslags fúsk þetta væri eiginlega og benti honum á að heita og kaldavatns rörin væru bundin saman í blöndunar tækjum rétt hjá inntökunum og bað hann að útskýra hvernig það gæti komið fram á prjónunum þegar ég aftengdi samtenginguna. Eftir langa þögn sagði hann að við skyldum bíða smá stund,  því þegar ég aftengdi hafi óæskilegir straumar horfið, en þeir væru að hlaðast upp aftur og hann skyldi sýna mér það á prjónunum. Síðan mundar hann prjónana og þeir fara á  fulla ferð, "sjáðu bara" segir hann hróðugur (sneri á mig).

Örbylgjuloftnetið
 "Þetta er nú kannski ekki sem verst, en það er eitthvað sem er að trufla ennþá". Hann gengur um gólf og prjónarnir hreyfast annað slagið. Svo segir hann allt í einu, "er kannski örbylgjuloftnet á húsinu hjá þér" og ég játa því. "Við skulum taka strauminn af því og sjá hvað gerist" segir hann. Við förum upp á efri hæðina og þar þurfti ég að fara upp á stól til að ná til tengilsins sem er á vegg ofan við hillu inn í fataherbergi. "Ég er búinn að taka klóna úr sambandi" laug ég, en hann gat ekki séð hvað ég gerði, því nú ætlaði ég ekki að ganga í sömu gildruna og með spennujöfnunina.

Allt komið í fínasta lag ?
Við förum niður og nú bærast prjónarnir ekki, "þarna sérðu, allt í góðu lagi" segir hann og ráðleggur mér að hafa loftnetið sem allra minnst í sambandi, því það hafi greinilega slæm áhrif, en nú sé allt komið í fínasta stand og svo muni hólkurinn sjá um að viðhalda þessu ástandi sem hann væri búinn að koma húsinu í.

Nú var mér nóg boðið og ég hefði hent karlinum út ef konan hefði ekki sussað aðeins á mig, þar sem ég var farinn að hækka róminn aðeins of mikið. Ég afþakkaði að kaupa hólkinn á fjörutíu og átta þúsund en borgaði átta þúsund krónur, en það var það verð sem hann sagði mér í símanum að kostaði að fá hann í heimsókn og koma hlutunum í lag.  

Kveðja B.B.

Frásögn þessi birtist fyrst í SART-fréttablaðinu í mars 2008. Þar sem mál af þessum toga hafa verið í umræðunni og eru komin til skoðunar hjá opinberum aðilum þótti rétt að birta aftur þetta bréf, ef það mætti verða til að upplýsa um þær blekkingar sem viðhafðar eru í þessum málaflokki og eru seldar saklausu fólki dýrum dómi.

Ásbjörn Jóhannesson


Samstarfsađilar

Smelltu á mynd til ađ fara á vef

Sa til hægri
mannvirkjastofnun
Mannvirkjastofnun
Rafiðnaðarskólinn
Fræðsluskrifstofa
Rafiðnarasambandið
Rafbók
Ákvæðisvinnustofa 
Stafir til hægri

Öryggi fagmennska

Slóđin ţín:

Fréttir

Toppmynd


Stjórnborđ

Minna letur Stćrra letur Veftré