Fréttir
7.4.2004
Drög að nýjum reglum um almenna heimild til fjarskiptastarfsemi.
Með lögum um fjarskipti nr. 81/2003 var afnumin með öllu skylda fjarskiptafyrirtækja til þess að sækja um sérstakt rekstrarleyfi hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Hluti fjarskiptafyrirtækja naut almennrar heimildar samkvæmt eldri lögum og var undanþeginn rekstrarleyfisskyldu, en nú á það við um öll fjarskiptafyrirtæki.
Fjarskiptafyrirtæki sem þurfa á tíðni- og númeraúthlutunum að halda þurfa eftir sem áður að sækja um slíkt til stofnunarinnar og lúta sérstökum skilyrðum sem ekki koma fram í reglum um almenna heimild. Póst- og fjarskiptastofnun setti reglur um almenna heimild árið 2002, en nú er þörf á að endurskoða þær reglur í samræmi við lög nr. 81/2003. Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert drög að nýjum reglum. Drögin innihalda í fyrsta lagi ákvæði um hvernig standa skuli að skráningu fjarskiptafyrirtækis og hvaða réttindi felast í heimildinni, í öðru lagi eru skilyrði sem fylgja heimildinni og byggjast þau á 6. gr. laga um fjarskipti og að lokum eru almenn ákvæði um breytingar, viðurlög o.fl.
Öllum sem hagsmuna eiga að gæta þ.m.t. notendum er heimilt að senda inn umsagnir um drögin. Óskað er eftir að umsagnir verði sendar á rafrænu formi á póstfangið pfs@pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að fá frumrit til skráningar. Umsagnir verða birtar á heimasíðu stofnunarinnar. Frestur til að skila umsögnum er til og með 26. apríl nk.
Sjá nánar á www.pta.is/
Samstarfsaðilar
Smelltu á mynd til að fara á vef