Fréttir
4.2.2004
Löggildingar rafvirkjameistara
Rafverktakar verða einir iðnmeistara að búa við það óhagræði að þurfa löggildingu tveggja ráðuneyta til sömu starfa. Á vegum iðnaðarráðherra er að störfum nefnd sem fjalla á um breytingar á byggingarreglugerðinni. SART hefur ritað nefndinni bréf þar sem óskað er eftir því að nefndin stuðli að því að þarna verði breyting á, þannig að B-löggilding Iðnaðaráðuneytis veiti rafverktökum ein og sér öll þau réttindi sem þarf til að þeir geti óhindrað rekið þá starfsemi sem þeir hafa menntun og reynslu til.
Við gerð skipulags og byggingarlaga sem tóku gildi 1997 var ekki tekið tillit til ábendinga samtaka rafverktaka þess efnis að B-löggilding Iðnaðarráðueytis á grundvelli laga nr.146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga (og reglugerðar um raforkuvirki nr. 264/1971 með síðari breytingum), ætti að duga fyrir viðkomandi til að geta borið ábyrgð fyrir byggingarnefnd á verkþáttum rafvirkjameistara. Núverandi fyrirkomulag er öllum til ama, ekki síst ágætu starfsfólki Umhverfisráðuneytis sem við hverja umsókn upplifir hvers konar óhagræði þetta er. Veruleikinn er nefnilega sá að löggilding Umhverfisráðuneytis veitir í raun engin réttindi, nema viðkomandi hafi jafnframt löggildingu frá Iðnaðarráðuneyti.
Báðar löggildingarnar byggja á þeirri meginkröfu að viðkomandi hafi lokið prófi frá meistaraskóla. Löggilding Iðnaðarráðuneytis gengur þó mun lengra og þar eru gerðar umtalsvert auknar kröfur, t.d. þær að rafverktakar komi sér upp skilgreindu öryggis-stjórnunarkerfi, þannig að tryggt sé að öll þeirra starfsemi sé samkvæmt reglum. Rafverktaka ber að framkvæma innri úttekt á öryggisstjórnun sinni árlega og löggildinguna þarf að endurnýja á fimm ára fresti. Þegar sótt er um endurnýjun löggildingar ber rafverktakanum að senda Löggildingarstofu undirritaða yfirlýsingu um að öryggisstjórnun hans og aðstaða uppfylli settar kröfur.
Löggildingarstofa löggildir rafverktaka í umboði Iðnaðarráðuneytis. Að mati SART ætti staðfesting stofnunarinnar til Umhverfisráðuneytis um löggildingu rafverktaka að nægja til þess að viðkomandi fái sjálfkrafa viðurkenningu skv. byggingarlögum.
ÁRJ
Samstarfsaðilar
Smelltu á mynd til að fara á vef