Fréttir
16.10.2003
Nýtt upplýsingakerfi fyrir skráningu ákvæðisvinnu rafvirkja
Ákvæðisvinnustofa rafiðna og Origo ehf., dótturfyrirtæki TölvuMynda hf. undirrituðu nýlega verksamning um þróun á nýju upplýsingakerfi fyrir skráningu ákvæðisvinnu rafvirkja. Gengið var til samninga við Origo ehf. að loknu útboði á verkefninu en ellefu tilboð bárust í úrvinnslu kerfisins og sá Rafteikning hf. um útboðið.
Nýtt kerfi mun auðvelda til muna útreikninga launagreiðslna rafvirkja sem starfa hjá verktökum. Áætlað er að í næstu áföngum geti rafverktakar meðal annars unnið
kostnaðaráætlanir, tilboðsgerð og uppgjör við verkkaupa í kerfinu. Kerfið sem er keyrt á Netinu, er skrifað í .NET og verður hýst hjá Skyggni hf. sem er samstarfsaðili Origo.
Að Ákvæðisvinnustofu rafiðna standa Rafiðnaðarsamband Íslands og Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði. Þessi samtök hafa gert með sér samning þess efnis að allar nýjar rafmagnslagnir skuli vinna í ákvæðisvinnu og því mikilvægt að þeir hafi upplýsingakerfi til þess að uppfylla ákvæði samningsins. Félagsmönnum verður veittur aðgangur að hinu nýja kerfi á Netinu þeim að kostnaðarlausu og þeir geta því fylgst sjálfir með verkum og uppgjöri vegna þeirra.
Samninginn undirrituðu þeir Guðjón Guðmundsson og Guðbrandur Benediktsson frá SART, Guðmundur Gunnarsson og Þorvarður G. Hjaltason frá FÍR, Stefán Þór Stefánsson frá Origo ehf. og Árni Jón Eggertsson frá Skyggni hf.
Smellið á myndina til að stækka hana
Samstarfsaðilar
Smelltu á mynd til að fara á vef